Fimleikar eru ein stærsta íþróttagreinin í Þorlákshöfn. Iðkendur eru 107 talsins frá aldrinum 4-16 ára og hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár sem er frábært. Við getum sagt með stolti að fimleikagjöldin eru mjög lág hér í sveitarfélaginu miðað við nágranna sveitarfélög enda markmið okkar að fimleikar eigi að vera fyrir alla.
Af fimleikalífinu er það helst að frétta að tveir elstu hóparnir fóru á haustmót í nóvember og var árangurinn sérstaklega góður í gólfæfingum. Stökkfimi hópur T1 keppti í flokknum Mix eldri á móti hjá Fimleikadeild Stjörnunnar og voru í 1. sæti af tveimur liðum. Hópfimi hópur T1 náði góðum árangri á gólfi á haustmót ÍA á Akranesi og var í 5. sæti og yfir heildina í 13. sæti af 15 liðum í 2. flokki. T2 tóku þátt í haustmóti Gerplu og náðu þau frábærum árangri á gólfi með sigri í sínum flokki en 17 sæti af 20 liðum í heildina.
Iðkendur Þórs í T1 og T2 náðu ekki alveg eins góðum árangri á trampolíni og á fibergólfi eins og á gólfi. Ekki er við elju og dugnað iðkenda að sakast heldur aðstöðuleysi til að æfa flókin stökk í íþróttahúsinu. Til að mæta þessu aðstöðuleysi höfum við neyðst til að senda elstu iðkendur fimleikadeildarinnar út fyrir sveitarfélagið á æfingar en það dugir því miður ekki til enda fáar æfingar og kostnaðarsamar fyrir deildina.
Fimleikar eru frábrugðnir öðrum íþróttagreinum að því leyti að það þarf að nota stór og dýr áhöld. Þess vegna erum við í fimleikadeildinni sérstaklega spennt fyrir komandi viðbyggingu við íþróttahúsið. Fögnum við sérstaklega ákvörðun bæjarráðs að framkvæmdum skuli lokið í byrjun skólaárs 2019-2020. Með þessari viðbyggingu mun álag á fimleika áhöld minnka þar sem þau geta verið úti standandi. Yngri iðkendum gefst þá kostur á að nota allan tækjabúnað fimleikanna þar sem þessi áhöld eru of þung og stór til að þau geti tekið þau út og gengið frá. Auk þess mun æfingatími iðkenda aukast þar sem mikill tími fer í að taka út áhöld og ganga frá þeim. Við þetta mun einnig álag á íþróttahúsinu minnka sem mun hafa jákvæð áhrif á önnur íþróttafélög.
Við hlökkum því til að geta haldið áfram metnaðarfullu starfi fimleikadeildarinnar með fullkominni aðstöðu fyrir alla aldurshópa þar sem árangurinn og framfarir iðkenda eiga ekki eftir að láta á sér standa.
Að lokum viljum við benda á að eins og undanfarin ár heldur fimleikadeildin glæsilega jólasýningu nú í desember. Hefð hefur verið fyrir því að setja upp leikrit og í ár er verkið frumsamið af einum iðkanda okkar. Mikill metnaður er lagður í sýninguna og væri gaman að sjá sem flesta á sýningunni laugardaginn 15.desember kl.11:00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Ingibjörg Aðalsteinsdóttir
Formaður fimleikadeildarinnar