Flöskuháls atvinnuþróunar á Suðurlandi

Grétar Ingi Erlendsson

Höfnin hér í Þorlákshöfn er okkur Sunnlendingum gríðarlega mikilvæg. Vöxtur hafnarinnar felur í sér hafsjó af tækifærum hvað varðar atvinnuþróun á svæðinu sem lengi hefur búið við heldur einsleitt atvinnulíf. Farmflutningar héðan lækka einnig flutningskostnað einstaklinga og fyrirtækja og skilar sér í lægra vöruverði til neytenda ásamt minna kolefnisspori.

Til marks um þá trú sem Sunnlendingar hafa á möguleikum hafnarinnar hér í Þorlákshöfn má nefna að á ársþingi Samtaka Sunnlenskra Sveitarfélaga var ályktað sérstaklega um höfnina og þess krafist að „stjórnvöld tryggi fjármagn til áframhaldandi eflingar og uppbyggingar hafnar í Þorlákshöfn“.

Sú uppbygging sem hefur verið á höfninni undanfarna áratugi hefur dugað skammt. Fiskiskipum sem landa hér hefur fækkað mjög með tilheyrandi tekjutapi og störfum við hafnartengda starfsemi hefur fækkað samhliða. Það var því mikið fagnaðarefni þegar samningar við Smyri Line náðust og Mykinesið hóf vikulegar siglingar til og frá frá Þorlákshöfn. Þrátt fyrir að siglingar á Mykinesinu gangi afar vel þá er ljóst að smæð hafnarinnar er flöskuháls á áframhaldandi þróun. Það er morgunljóst að aðgerða er þörf ætlum við okkur að halda í þau tækifæri sem hér hafa myndast og auka trúverðugleika hafnarinnar sem inn- og útflutningshöfn.

Í september síðastliðinn var flutt þingsályktunartillaga um innviðauppbyggingu og markaðssetningu hafnarinnar í Þorlákshöfn. Í henni var samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra falið að skipa starfshóp til að móta stefnu um hvernig standa megi að innviðauppbyggingu hafnarinnar svo höfnin geti vaxið sem inn- og útflutningshöfn. Starfshópur þessi átti skv. þingsályktunartillögunni að skila skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. maí 2019.

Þessi þingsályktunartillaga var því miður ekki samþykkt og ljóst að enn um sinn er atvinnuöryggi og vaxtartækifærum hér í Ölfusi stefnt í hættu.

Þingsályktunartillöguna má lesa með því að smella á tengilinn hér til hliðar: https://www.althingi.is/altext/149/s/0122.html

Grétar Ingi Erlendsson
bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Ölfusi