Samkvæmt heimildum Hafnarfrétta er nú unnið að undirbúningi byggingar á 15 íbúða fjölbýlishús í Þorlákshöfn að Sambyggð 14a. Framkvæmdir munu líklegast hefjast í apríl og stefnt er á að afhenda íbúðirnar í júlí/ágúst 2019. Einnig er fyrirhugað að byggja 3 raðhús með samtals 9 íbúðum sem seldar verða á áður óþekktu verði.
Þannig herma heimildir Hafnarfrétta að stefnt sé að því að selja tveggja herbergja nýjar íbúðir með innréttingum og tækjum á 14,6 milljónir. Reynist það rétt má ljóst vera að um straumhvörf er að ræða á húsnæðismarkaði hér á landi.
Á heimasíðu Próhúsa er fjallað um þennan nýstárlega byggingastíl og þar kemur fram að burðarvirki sé úr galvaníseruðum stálprófílum, einangrað með létt ull milli stálprófíla og klætt að innan með gifsi en að utan með magnesiumplötum sem kallast Nevpanell. Einangrun er síðan með hefðbundnum hætti að utan, með pressaðri steinull og múrkerfi. Útlit hússins er því nokkuð hefðbundið fyrir íslenskan markað.
Myndin sem fylgir fréttinni er fengin af heimasíðu Próhús sýnir dæmi um þau hús sem fyrirtækið stefnir að því að byggja. Athygli vekur að húsið er merkt 14A sem samsvarar einmitt lóðinni Sambyggð 14 A þar sem samkvæmt skipulagi verður byggt fjölbýlishús.
Eðlilegt er að fólk spyrjir sem hvort Ölfusið hafi fundið lausn á íbúðarvandanum.