Nú hefur íþróttamiðstöðin myndað sitt þriggja manna lið og eru þau nokkuð brött um að sigra þessa sjó-boðsundskeppni sem er nýr dagskráliður hjá Björgunarsveitinni Mannbjörg sem skipuleggur dagskrána við bryggjuna á sunnudag.
Þorsteinn Már, sem fer fyrir liði íþróttamiðstöðvarinnar, sagði brattur: ,,Ég veit ekki hver þorði að skora á okkur, við rústum þessu!“ En það var auðvitað sjálfur bæjarsjórinn sem hafði dug í að skora á þessa kokhraustu starfsmenn íþróttamiðstöðvarinnar. Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar skorar á slátturgengi Þorlákshafnar og segjast búast við því að Pálmi Þór Ásbergsson fari fyrir því liði.
Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman.
Síðar í dag er von á leikreglum í þessari sjó-boðsundskeppni, björgunarsveitin er að leggja lokahönd á að búa þær til. Á morgun, fimmtudag má reikna með að hægt verði að æfa undir ströngu eftirliti björgunarsveitarinnar. Haft verður samband við keppendur með nánari upplýsingar um það.
Að gefni tilefni er rétt að benda á að það getur hver sem er myndað lið og skráð sig í keppnina, hvort sem búið er að skora á fyrirtækið, vinahópinn eða hvern þann sem langar að taka þátt. Skráning fer fram á facebook síðu Björgunarsveitarinnar Mannbjörg.