Fjórði grænfáninn afhentur Grunnskólanum í Þorlákshöfn við hátíðlega athöfn
Það má með sanni segja að umhverfismál hafi verið í brennidepli í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í dag. Í morgun fékk skólinn sinn fjórða grænafána afhentan við hátíðlega athöfn eftir að hafa lagt mikla áherslu á matarsóun og önnur umhverfismál síðustu tvö árin. Unga fólkið er margt fremst í flokki við að vekja athygli á umhverfismálum og hamfarahlýnun af mannavöldum og í athöfninni hélt Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir, nemandi í 9. bekk, ræðu þar sem hún talaði m.a. um mikilvægi þess að samfélagið í heild hjálpist að í þessu verkefni. Við fengum leyfi hennar fyrir því að birta ræðuna í heild sinni og má finna hana hér fyrir neðan.
Ráðherra og nemendur gróðursettu tré í tilefni eflingu Yrkjusjóðs
Í hádeginu fóru svo nemendur í 5. bekk upp á Hafnarsand þar sem þau hittu fyrir Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem gróðursetti trjáplöntur með þeim ásamt fleira góðu fólki í Þorláksskógum.
Tilefni gróðursetningarinnar var að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur undir áherslur er lúta að kolefnisbindingu og aukinni fræðslu.
,,Yrkjusjóður hefur gert börnum um allt land kleift að taka þátt í að binda kolefni úr andrúmslofti. Með því að efla verkefnið geta enn fleiri börn tekið þátt í að takast á við eina stærstu áskorun þessarar aldar, loftslagsvána. Verkefnið felur jafnframt í sér endurheimt birkiskóga og lífríkis landsins sem stjórnvöld leggja nú stóraukna áherslu á.“
Segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
800 þúsund trjáplöntur gróðursettar á vegum Yrkjusjóðs
Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins (Yrkjusjóður) var stofnaður í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur og var fyrsta úthlutun úr sjóðnum árið 1992. Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun grunnskólabarna á Íslandi og kynna þannig mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu. Yrkja á í formlegu samstarfi við alla grunnskóla í landinu og frá stofnun sjóðsins hafa grunnskólabörn gróðursett nærri 800 þúsund trjáplöntur á hans vegum. Ætla má að verkefnið hafi bundið um 20.000 tonn af CO 2 sem sýnir hversu mikil áhrif skólaverkefni getur haft.
Skólabörn vilja taka þátt í að leysa vandann
„Skólabörn um allan heim hafa gert kröfu um meiri fræðslu um loftslagsbreytingar auk þess sem þau vilja taka þátt í að leysa vandann. Yrkjusjóður vill í því ljósi efla hlutverk sitt, ná til allra grunnskóla á landinu og auka fræðslu um endurheimt landgæða, skógrækt og kolefnisbindingu í gróðri,“ segir Andri Snær Magnason, stjórnarformaður Yrkjusjóðs.
„Við komum hingað fyrir Jörðina okkar af því að við erum að reyna að hugsa vel um hana. Mengunin er alltaf að verða meiri og meiri og það er gott fyrir Jörðina að planta trjám,“ segja Elísabet Marta Jónasdóttir og Alexander Guðmundsson, nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Ræðan sem Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir hélt við afhendingu fjórða grænfána Grunnskólans í Þorlákshöfn
Kæru nemendur og starfsfólk – til hamingju með nýja grænfánann. Við náðum því takmarki að endurnýja fánann og ættum að vera stollt af því sem heild. Hver og einn skiptir máli í þessu verkefni og núna verður bara næsta verkefni að fá hann aftur eftir tvö ár. Við erum búin að standa okkur vel í matarsóunnarverkefninu en það er alltaf hægt að gera betur og á þessum næstu tveim árum ætlum við að gera það, eða allavegana þið, því ég verð hér ekki eftir tvö ár svo það er eins gott að þið standið ykkur, enginn pressa.
Það eru allir líka búnir að vera duglegir að flokka, hér í skólanum og vonandi líka heima hjá sér. Að mínu mati er grænfáninn ekki bara eitthvað sem bara skólinn vinnur að. Mér finnst að sveitarfélagið allt hafi unnið hann, það er nefnilega ekki bara grunnskólinn sem hefur verið duglegur að vinna með flokkunarstöðvar heldur líka íþróttahúsið, leikskólinn og ráðhúsið og svo er búðin farin að lána fjölnota innkaupapoka svo mér finnst að allt sveitarfélagið eigi heiður af þessu verkefni.
Við í umhverfisnefnd skólans erum nemendur frá 1. bekk til 10. bekkjar og svo nokkrir kennarar og gangaverðir. Umhverfisnefndinni er stjórnað af Önnu Margréti og hefur hún gert það með prýði. Við í nefndinni erum búin að gera margt þetta skólaárið til að halda fánanum. Við skrifuðum t.d. upp hvað okkur finnst gott að borða og hvað okkur fyndist vont og hengdum það upp á vegg til að koma í veg fyrir meiri matarsóun. Svo skrifuðum við umhverfisorð skólans sem eru: hamingjan er okkar, flokkun rokkar!
Akkúrat núna eru bekkir skólans að skipta sér í hópa og skipta bænum á milli sín og tína rusl á þeim stöðum sem þau fengu og eftir því sem ég hef séð finnst mörgum það alveg ágætt. Ég held að þeim leiðist allavegana ekki því á miðvikudaginn þegar einhverjir bekkir voru að tína rusl heyrði ég marga krakka syngja HATRIÐ MUN SIGRA með ruslapokann á lofti og voru alveg í sínum heimi.
En allavega, ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil þakka öllu þeim sem hafa unnið að grænfánanum og öllum sem eru að gefa okkur grænfánann. Núna er bara að halda áfram að vera dugleg því við megum ekkert hægja á okkur. Eins og Anna Margrét segir þá skipta litlu hlutirnir máli. Við þurfum ekki að fá okkur rör á veitingarstöðum, allir þessir hlutir skipta máli. Við eigum bara eina jörð og bara það að svona lítið bæjarfélag sé að gera þessa hluti getur skipt meira máli en við höldum. Eins og slagorð skólans segir vinátta, virðing og velgengni.