Hamingjan við hafið fór einstaklega vel af stað í gær og virkilega gaman að sjá og finna stemninguna sem er aldeilis að myndast í bænum.
Hátíðin hófst á útsendingu á Hamingjurásinni þar sem Grétar Ingi, formaður menningarnefndar, setti hátíðina sem nú er haldin í fyrsta sinn. Þá var einnig dagskrá Hamingjurásarinnar kynnt og þar vantar ekki metnaðinn og hver flotti þátturinn á eftir öðrum.
Þá var haldið í sundlaugina þar sem var sýningaropnun á myndlistarsýningu sem hægt er að njóta í sundferðum næstu daga og einnig frá sundlaugabakkanum.
Á hverfafundum í skólanum í gærkvöldi var mikil stemning og stórhuga fólk sem lagði línur fyrir fótboltann sem er einmitt í kvöld og hverfapartýin sem verða á laugardagskvöldið.
Þá æfði líka Lúðrasveit Þorlákshafnar en venju samkvæmt mun hún leiða litaskrúðgönguna sem að þessu sinni gengur í gömlu bræðsluna við höfnina. Það er von á óvæntu útspili frá Lúðrasveitinni svo þið getið látið ykkur hlakka til skrúðgöngunnar!
Leikir í Skrúðgarðinum
Í dag hefst dagskráin að sjálfsögðu á Hamingjurásinni kl. 10 og því næst í Skrúðgarðinum kl. 16 þar sem ungmennaráð heldur utan leikjastöðvar. Þar verður hægt að fara í kíló, snúsnú, körfu, brennó og fleira skemmtilegt. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að mæta og leika sér með börnunum, nú eða hafa það huggulegt í fallega garðinum okkar á meðan blessuð börnin (á öllum aldri) leika sér.
Skírnakjólar á nýrri sýningu í galleríinu Undir stiganum
Í galleríinu Undir stiganum verður sýningaropnun kl. 17 sem ber heitið Tak það í faðm og blítt það ber. Þar verður hægt að virða fyrir sér ólíka skírnakjóla og sjá upplýsingar um þá sem hafa verið skýrðir í hverjum kjól. Kaffi og konfekt verður í boði.
Hverfin berjast
Hverfin berjast er nafn á viðburði þar sem hverfin koma saman á gamla grasvellinum til þess að spila fótbolta og hafa gaman. Hvert hverfi hefur nú sett saman lið sem það mun tefla fram þar sem einu reglurnar eru að leikmenn mega ekki vera í meistaraflokk og þurfa einnig að vera 30 ára eða eldri. Spilaðir verða stuttir leikir og er það knattspyrnufélagið Ægir sem heldur utan um þennan viðburð. Allir íbúar eru að sjálfsögðu hvattir eindregið til þess að mæta í sínum lit og hvetja sitt lið áfram!
Kósý tónleikar á sundlaugarbakkanum
Þegar fótboltinn klárast mun leiðin liggja beint í sundlaugina þar sem Þorlákshafnardóttirin Anna Margrét Káradóttir mun syngja vel valin lög við undirleik Tómasar Jónssonar. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og er frítt í laugina auk þess sem boðið verður upp á kaffi til að drekka í pottinum.
Er hægt að hugsa sér það eitthvað betra?
Dagrkáin í heild sinni er aðgengileg hér https://www.olfus.is/static/files/Skrar/vefdagskra.pdf