Það ætlar ekkert af veðrinu að ganga þetta sumarið og hafa Þorlákshafnarbúar aldeilis fengið að njóta þess fyrstu tvo daga Hamingjunnar. Miðað við veðurspá þá mun blíðan verða óstöðvandi alla helgina og því allt samkvæmt áætlun.
Dagskráliðir gærdagsins lukkuðust vel, allstaðar vel mætt og stemningin frábær. Neðar í fréttinni fylgja myndir en nú ætlum við aðeins að fara yfir dagskráliði fimmtudagins 8. ágúst í Hamingjunni við hafið.
Lautarferð í Skrúðgarðinum
Á Hafnardögum í fyrra tóku sig til nokkrar mömmur og boðuðu til lautaferðar í Skrúðgarðinum sem lukkaðist mjög vel og því tilvalið að prófa aftur. Enda skartar Skrúðgarðurinn sínu fegursta núna og fátt betra en að sitja í fallegri laut með kaffibolla og eitthvað að maula í góðum félagsskap.
Takið með ykkur nesti og góða skapið og hittumst kl. 15 í 17. júní lautinni.
Sundlaugarpartý
Það verða tvö sundlaugarpartý í dag. Það fyrra hefst kl. 17 og er fyrir börn fædd 2007-2009 en yngri börn eru velkomin með ábyrgðarmönnum. Þar verður í boði krapís, leikir og diskóstuð. Sundlaugarpartýið sem hefst kl. 19.30 er fyrir unglinga fædda 2006 og eldri. Þar verður einnig krapís í boði, leikir og hvorki meira né minna en heil hljómsveit á sundlaugarbakkanum. Það eru strákarnir okkar í hljómsveitinni No Sleep sem munu leika fyrir sundlaugagesti, en þeir munu einnig koma fram á stórtónleikunum á föstudagskvöld.
Nýtt vegglistaverk hefur fæðst
Á veggnum hjá Helgu og Sigurði á móti Sambyggð 2 hefur nú fæðst nýtt vegglistaverk sem er afrakstur veggjalistarnámskeiðs sumarsins undir handleiðslu Ágústu Ragnarsdóttur. Endilega fáið ykkur göngutúr í góða veðrinu og virðið þetta glæsilega verk fyrir ykkur.
Þeir listamenn sem að þessu komu voru Daníel Rúnarsson, Birgitta Björt Rúnarsdóttir og Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir.
Heldriborgara fjör á 9unni
Sumir segja að þetta verði besta partýið í Hamingjunni við hafið enda uppskirftin skotheld; grill, söngur og harmónikkuball. Þetta getur bara ekki klikkað! Fyrirkomulagið er þannig að allir koma með það sem þeir vilja setja á grillið ásamt tilheyrandi og svo bara njóta.
Stebbi Jak og Andri Ívars á Hendur í höfn
Þeir eru þekktir fyrir að vera stútfullir af hæfileikum, sjúklega fyndnir, syngja og spila mjög hátt og nokkuð víst að þeir munu fara á kostum!
Uppselt er á viðburðinn.