Foreldrar barna á leikskólanum Bergheimum sem ósáttir eru við komu Hjallastefnunnar til Þorlákshafnar hafa sent bæjarstjórn, bæjarstjóra og fulltrúum Hjallastefnunnar bréf og 89 undirskriftir þar sem þau vilja þrýsta á bæjarstjórn Ölfuss að draga sig út úr viðræðum við Hjallastefnuna.
Foreldrar barna á Bergheimum voru um 200 talsins 1. júní síðastliðinn og miðað við það þá er þetta tæplega helmingur foreldra sem hafa skrifað undir listann. Til viðbótar máttu foreldrar verðandi barna á leikskólanum skrifa undir listann. Í bréfinu, sem Hafnarfréttir hafa undir höndum, segir að gera megi ráð fyrir að listinn sé ekki tæmandi þar sem ekki allir hafi rafræn skilríki. Sá hópur er sagður vera að safna sínum undirskriftum. Þá segir að von sé á fleiri undirskriftalistum í framhaldinu sem hafa tafist vegna sumarleyfa.
„Við teljum högum barna okkar ekki best borgið í því fyrirkomulagi sem Hjallastefnan stendur fyrir (kynjaskiptingu, regluverki um leikföng, fatnað o.fl.) og teljum röksemdarfærslu bæjarstjórnar máli sínu til stuðnings ekki standast skoðun (s.s. ómarktækar ánægjukannanir),“ segir í bréfi foreldranna en þeim þykir vinnubrögð bæjarstjórnar í þessu máli vafasöm.
„Við hörmum að okkur foreldrum, starfsfólki Bergheima og íbúum hér hafi ekki verið boðið að borðinu í máli sem á við okkur svo brýnt erindi sem raun ber vitni.“