Ferð í Landmannalaugar í boði Kiwanisklúbbsins Ölvers


Fimmtudaginn 27. ágúst sl. fóru nemendur 8. og 9. bekkja Grunnskólans í Þorlákshöfn í frábæra ferð í Landmannalaugar.

Aðdragandi verkefnisins er að fyrir tveimur árum komu fulltrúar Kiwanisklúbbsins Ölvers að máli við skólastjórnendur og óskuðu eftir að fá að koma að fræðslu- og forvarnarmálum unglinganna í skólanum. Til verkefnisins vildu þeir verja ágóða af svokölluðu skókassaverkefni – en það verkefni er unnið í samstarfi við jólasveinana sem kaupa varning af Kiwanismönnum til að setja í skóinn hjá þægum börnum á aðventunni.

Ákveðið var að fara með nemendur í 8. og 9. bekk í útivistarferð að hausti. Fara annað hvert ár í Þórsmörk og hitt árið í Landmannalaugar. Tilgangur ferðarinnar er náttúruupplifun og fræðsla um landið en ekki síður að styrkja vinabönd og efla hópinn á jákvæðan hátt.

Ferðin
Veðurguðirnir voru með okkur í liði og fengum við milt og gott veður ferðadaginn okkar. Nemendur mættu vel útbúnir og tilbúnir í ævintýri dagsins. Vignir Arnarson Kiwanismaður keyrði af stað með 50 nemendur og fjóra kennara. Með í för var einnig Bjarni Hannesson leiðsögumaður en hann er vanur að fara með ferðamenn í ferðir sem þessar. Bjarni sagði frá áhugaverðum stöðum á leiðinni, fjöllum, ám og fólki. Frásögn Bjarna gæddi ferðina lífi og var áhugaverð fyrir nemendur og kennara.

Á leiðinni var stoppað við Hjálparfoss. Þar biðu Kiwanismennirnir Þór, Ágúst Jens, Gústaf og Þráinn. Þeir voru tilbúnir með smurðar samlokur og safa handa öllum. Eftir stutt stopp við Hjálparfoss var ferðinni haldið áfram. Næsta stopp var við Hnausapoll sem er stór og tilkomumikill gígur.

Eftir það var ferðinni heitið í Landmannalaugar. Þegar þangað var komið beið okkar heitt kakó og brauð. Eftir kakópásu var haldið af stað í göngu um svæðið. Flestir gengu um Grænagil og Landmannahraun en þrettán manna hópur vildi fara lengra og gengu þeir nemendur tæpa 14 km upp að Brennisteinsöldu, Vöndugil og um Landmannahraun. Eftir gönguna fóru sumir í bað í heita læknum sem var mikið fjör. Nemendur stóðu sig frábærlega í ferðinni og voru hugfangnir af stórkostlegri náttúrufegurð Landmannalauga.

Að göngunni lokinni biðu Kiwanismenn með glæsilega grillveislu handa hópnum. Grilluð læri og meðlæti!

Um fimmleytið var haldið heim á leið eftir stórkostlegan dag í Landmannalaugum. Ferðin var mikil upplifun fyrir alla og tilgangi hennar sannarlega náð.

Nemendur og starfsfólk skólans þakka Kiwanisklúbbnum fyrir þetta einstaka tækifæri. Sá ótrúlegi velvilji sem endurspeglast í þessu framtaki er okkur mikils virði og á vonandi eftir að verða öllum ferðalöngum dýrmæt minning um góða samveru á einni dýrmætustu náttúruperlu landsins.

Skólastjórnendur, starfsfólk og nemendur Grunnskólans í Þorlákshöfn

Myndir við frétt eru teknar af Gabríel Elí Hákonarsyni nemanda í 8. bekk