Skammdegishátíðin Þollóween verður haldin dagana 26.-31. október og er það í þriðja sinn sem Þorlákshafnarbúar fagna myrkrinu, klæða sig upp og skemmta sér hræðilega í heila viku. Það var áskorun að koma hátíðinni saman í ár enda ganga hátíðir almennt út á það að fólk komi saman til að skemmta sér sem er þvert á það sem leyfilegt er á þessum fordæmalausum tímum. Þollóween nefndin ákvað að láta það ekki stoppa sig heldur leita leiða til að búa til vettvang og tilefni fyrir fjölskyldur að eiga skelfilega góðar stundir saman, án þess að vera mikið að hitta aðra samt. Sem fyrr er sú nefnd skipuð konum í þorpinu sem eiga það sameiginlegt að vera léttgeggjaðar og hafa gaman af allskonar veseni. Foreldrafélögin í leikskólanum Bergheimum og Grunnskólanum í Þorlákshöfn koma líka að verkefninu.
Hér má nálgast dagskrána í PDF skjali sem hægt er að prenta út, en dagskráin verður ekki borin út í hús að þessu sinni. Aftan á dagskránni er myndabingó sem tilheyrir Draugagarðinum sem opnar miðvikudaginn 28. október kl. 17 í Skrúðgarðinum en Draugagarðurinn verður opinn fram á laugardagskvöld. Þar geta fjölskyldur komið saman og tekið þátt í ýmsum leikjum á eigin forsendum.
Beinar útsendingar
Þriðjudagskvöldið 27. október mun Leikfélag Ölfuss glæða draugasögu lífi í beinni útsendingu í gegnum Facebooksíðu Þollóween svo endilega skellið „like“ þá síðu og fylgist með. Þá verða sendir út tónleikar á vegum Hljómlistafélags Ölfuss laugardagskvöldið 31. október þar sem fjölmargt tónlistarfólk úr heimabyggð mun koma fram en tónleikarnir verða í beinni útsendingu frá síðu Hljómlistarfélags Ölfuss. Dagskrá tónleikanna verður kynnt á næstu dögum.
Bílabíó
Tvær klassískar myndir verða sýndar í bílabíói við smábátahöfnina fimmtudaginn 29. október. Fyrst verður sýnd fjölskyldumyndin Hocus Pocus kl. 18 og síðar um kvöldið eða kl. 20.30 hryllingsmyndin Scream. Það er eflaust langt síðan fólk fór í bíó svo þetta verður kærkomin upplifun fyrir marga og um að gera að taka með nasl og drykki í bílinn og hafa það huggulegt. Nánari upplýsingar um bílabíóið kemur á Facebooksíðu Þollóween á næstu dögum, en þess má geta að Sveitarfélagið Ölfuss styrkir hátíðina með þessu framlagi.
Grikk eða gott
Föstudagskvöldið 30. október á milli kl. 17-19.30 ganga furðuverur í hús í Þorpinu og hóta grikk ef þau fá ekki gott. Vegna COVID er nauðsynlegt að þau ykkar sem viljið taka á móti furðuverum skráið ykkur hér fyrir kl. 16 miðvikudaginn 28. október. Ástæðan fyrir því er sú að við viljum ekki að furðuverur banki upp á hjá fólki sem er í sóttkví eða með COVID og eins til að koma í veg fyrir að þau sem vilja ekki fá gesti geti verið viss um að enginn muni banka upp á hjá sér. Það er gríðarlega mikilvægt að foreldrar taki svo þátt í þessu með börnunum sínum og vísi þeim í rétt hús en Þollóween nefndin mun gefa út skjal með yfirliti yfir öll þessi hús sem taka fagnandi á móti furðuverum.
Mikilvægar COVID leiðbeiningar fyrir Grikk eða gott
1. Allir sem vilja bjóða furðuverum heim skrá sig hér fyrir miðvikudaginn 28. október kl. 16. Upplýsingum verður safnað saman og deilt fimmtudaginn 29. október. Börn fari AÐEINS Í SKRÁÐ HÚS í samstarfi við sína foreldra/forráðamenn.
2. Hafið ALLT sælgæti í UMBÚÐUM og í íláti svo furðuverur geta tekið beint úr ílátinu.
3. Hafið nammi ílát á borði eða stól við dyrnar til að halda öruggri COVID fjarlægð frá furðuverum.
4. Spritta sig vel og hvetja furðuverur til að spritta.
Endurnýtum búninga
Á Facebook er að finna hóp þar sem hægt er að skiptast á og endurnýta búninga. Flest börn vaxa upp úr sínum búningum á milli ára og þá er um að gera að gefa þeim framhaldslíf á nýjum stað. Hópurinn heitir Þollóween búningar – skipti og sölusíða og má finna hér.
Að lokum
Þetta sem hér er talið upp er aðeins brot af dagskrá Þollóween 2020 og mælum við með því að þið lúslesið dagskrána, byrjið að huga að hryllilegum skreytingum og búningum. Að sjálfsögðu fara fullorðnir líka í búning!