Banaslys í malarnámunni í Lambafelli

Klukkan sjö í morgun barst Neyðarlínu tilkynning um slys í malarnámu suðaustanvert í Lambafelli við Þrengslaveg í Ölfusi. Þar reyndist jarðýta, sem verið var að nota við að losa efni og ýta fram af fjallsbrúninni, hafa farið fram af brúninni og ofan í námuna. Stjórnandi vélarinnar, íslenskur karlmaður á sextugs aldri, fannst skammt frá vélinni og reyndist látinn þegar að var komið. Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Tildrög slyssins, sem talið er hafa átt sér stað einhverntíman á tímabilinu eftir klukkan 23:00 í gærkvöldi og til morguns, eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Lögreglan leitar eftir upplýsingum frá vegfarendum um Þrengslaveg á þeim tíma, um tímasetningar s.s. hvort þeir hafi séð til vinnuvélarinnar. Slíkum upplýsingum má koma til skila í síma 444 2000, í tölvupósti á sudurland@logreglan.is eða á facebook síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Lögreglan getur ekki veitt frekari upplýsingar um rannsóknina að sinni.