Í vikunni voru haldnir kærleiksdagar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að sýna hvert öðru góðvild og mildi í daglegu lífi. Dagarnir gengu vel og voru nemendur og starfsfólk dugleg að ræða saman um það hvernig þau gætu öll sýnt stuðning og kærleik, bæði til annarra og ekki síst til okkar sjálfra. Fátt er jafn uppbyggilegt fyrir okkur sem einstaklinga en að sýna velvild og láta gott af okkur leiða.
Í tilefni Kærleiksdaganna heimsótti lögreglan nemendur á elsta stigi skólans og ræddi við þá um störf sín. Einnig var farið yfir hættur sem fylgja vopnaburði, sérstaklega í ljósi hörmulegra atburða á menningarnótt. Þetta var fræðandi og mikilvægt samtal sem gaf nemendum innsýn í mikilvægi forvarna og umhyggju fyrir öðrum.
Í hverjum bekk voru unnin ýmis verkefni sem snerust um kærleikann. Nemendur bjuggu meðal annars til kærleiksóróa, tóku þátt í leiknum Nonni Næs og unnu hugarkort um kærleikann. Það ríkti góð stemning alla vikuna, sem endaði á hádegisdiskó og litadegi þar sem nemendur komu saman klæddir í rauðum og bleikum litum. En rauður er litur kærleikans og bleikur var valinn til að heiðra minningu Bryndísar Klöru.
Á lokadegi kærleiksdaganna var öllum nemendum safnað saman út á frjálsíþróttavöllinn þar sem þeir bjuggu til manngert kærleikslistaverk, sem var virkilega fallegt og sýndi frábæra samstöðu.
Einnig unnu allir nemendur að sameiginlegu listaverki með yfirskriftinni: „Með kærleikann að vopni sigrumst við á ofbeldi og og hatri.“ Með kærleikann að leiðarljósi byggjum við upp betra samfélag. Myndir með dróna eru teknar af Tedda Owen og vill skólinn þakka honum kærlega fyrir hjálpina.