Þórsarar unnu feikilega sterkan sigur á Valsmönnum í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn fyrr í kvöld, 98-96, eftir mikinn spennuleik. Með sigrinum styrktu Þórsarar stöðu sína enn frekar í 2. sæti Dominos deildarinnar.
Callum Lawson fór á kostum í liði Þórs í kvöld og skoraði hann 31 stig, með 71% þriggja stiga nýtingu og 62% tveggja stiga nýtingu. Þá skoraði hann úr öllum 6 vítaskotum sínum.
Styrmir Snær átti frábæran leik og skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
Larry Thomas skoraði 14 stig, Ragnar Örn 11, Adomas Drungilas bætti við 9 stigum og tók 12 fráköst. Emil Karel skoraði 5 stig, Davíð Arnar 3 og Halldór Garðar 1 en Davíð og Halldór voru komnir snemma í villuvandræði í leiknum.
Næsti leikur Þórsara er á mánudaginn þegar þeir sækja Hött heim á Egilsstaði.