Fyrir fáeinum dögum var birtur framboðslisti D-listans vegna sveitarstjórnarkosninganna sem fara fram 14. maí nk. Þar skipa ég 4. sætið. Ég hef hingað til ekki verið virk í stjórnmálastarfi og því von að ég fái spurningar um hvers vegna ég taki nú skrefið. Að fólk vilji hreinlega vita hvers vegna? Svarið er einfalt, ég vil hafa áhrif. 

Ég er fædd og uppalin hér í Ölfusi, nánar tiltekið í Þorlákshöfn og þykir mér mjög vænt um samfélagið. Hér hef ég ásamt manni mínum valið að koma okkur upp heimili til framtíðar. Við eigum þrjú börn sem við viljum ala hér upp enda trúum við því að hvergi sé betra að vera. Draumur minn er sá að þetta samfélag verði síðar raunhæfur valkostur fyrir börnin okkar þegar þau velja sér framtíðarbúsetu. Hér vil ég líka geta notið eldri áranna.

Á seinustu árum hef ég séð hvað hægt er að gera þegar kraftmikið fólk stendur saman. Ég er stolt af því hversu hratt íbúum fjölgar og þá ekki síður þeirri staðreynd að þeir skuli teljast þeir ánægðustu á landinu öllu þegar slíkt er mælt. Ég gleðst einnig mikið yfir nýjum atvinnutækifærum og horfi vonaraugum til margra spennandi verkefna sem nú eru í deiglunni. Má þar nefna landeldi, vöxt hafnarinnar, byggingu vöruhúss Smyril line og margt fleira. Hjarta mínu næst standa þó málefni barna og eldri borgara.

Fái ég traust og umboð íbúa vil ég sjá sveitarfélagið okkar skipa sér fastar í fremstu röð barnvænna samfélaga. Ég vil fylgja eftir byggingu nýs leikskóla, stækkun grunnskólans og aukinnar áherslu á lýðheilsu. Ég vil halda áfram að styrkja og efla faglegt starf stoðþjónustu við börn. Ég vil búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og tel löngu tímabært að bæta mjög dagþjónustu við aldraða og halda áfram að fjölga íbúðum sniðnum að þörfum þeirra. Ég vil að sveitarfélagið okkar sé í fremstu röð.

Á næstu vikum hefst hin formlega kosningabarátta og þá mun mér vonandi gefast tækifæri til að ræða þessi áherslumál mín og önnur við bæjarbúa. Ekki síður hlakka ég til að eiga samtal um velferð okkar og framtíð, taka við ábendingum og leggja leið til framtíðar.

Erla Sif Markúsdóttir
Grunnskólakennari og frambjóðandi í 4. sæti D-listans.