Ég er stolt af því að fá tækifæri til að vera partur af öflugum og metnaðarfullum hópi D-listans sem hefur það að markmiði að gera gott sveitarfélag ennþá betra. Mér þykir vænt um sveitarfélagið Ölfus og vil gera gagn fyrir samfélagið mitt. Ég hef einlægan áhuga á því að gera vel og að sveitarfélagið mæti þörfum íbúa sinna. Ég er þrítug, fædd og uppalin á Kröggólfsstöðum og bý í dag á Þórustöðum 2 ásamt sambýlismanni mínum og dóttir okkar.
Börn, fjölskyldur, lýðheilsumál, málefni eldri borgara, öryrkja, umhverfis- og samgöngumál eru málefnaflokkar sem eru mér ofarlega í huga. Heimsfaraldurinn hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir andlega líðan fólks. Öflugt íþrótta- og tómstundarstarf hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú, enda spornar það gegn félagslegri einangrun og eykur vellíðan. Við þurfum að hvetja alla aldurs- og samfélagshópa til þátttöku.
Það er frábært að ala upp börn í Ölfusi og ég vil leggja mitt af mörkum til að svo verði áfram. Mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað á síðustu árum og mikilvægt er að þróa þjónustuna í samræmi við það t.d. með því að geta tekið á móti fleiri börnum í leikskólum, grunnskólum og tómstundarstarfi. Við sem búum í dreifbýlinu sækjum þjónustu leik- og grunnskóla í Hveragerði, mig langar að auka samskiptin milli sveitarfélaganna í þessum málum og halda áfram að bæta skólaakstur til að stytta skóladag grunnskólabarna.
Þegar ég tala um umhverfismál þá er ég bæði að tala um útlit og ásýnd sveitarfélagsins í heild, höldum umhverfinu hreinu og snyrtilegu. Bæta þarf snjómokstur verulega, lýsing á götum, gatnamótum og göngustígum þarf að vera í lagi. Einnig vil ég að tekið sé upp samtal við strætó um bættar almenningssamgöngur í dreifbýlinu.
Ég vil að byggt verði upp fjölbreytt net göngu-, hjóla- og reiðleiða í sveitarfélaginu og tekið upp markvisst samtal við Hveragerðisbæ og hestamannafélagið Ljúf um uppbyggingu reiðhallar við Vorsabæjarvelli. Fyrir öryrkja vil ég að það sé í boði gjaldfrjáls líkamsrækt til heilsueflingar og kynna betur þá þjónustu sem er í boði fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu.
Hverfisráð er eitt af þeim atriðum sem við viljum koma af stað. Það væri mjög góður vettvangur fyrir íbúa dreifbýlisins til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á þau ýmsu málefni sem eru í gangi hverju sinni.
Við þurfum sífellt að leita leiða til að efla og þróa þjónustuna fyrir íbúa á öllum aldri og sama hver staðsetning er innan sveitafélagsins, ég vil að allir blómstri í samfélaginu okkar.
Á síðustu vikum hef ég átt mörg samtöl við íbúa og þakka öllum þeim sem hafa deilt skoðun sinni á þeim ýmsu málefnum sem á þeim brann. Ég hlakka til að eiga fleiri samtöl við íbúa sveitarfélagsins um þessi málefni og fleiri á næstu vikum.
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, frambjóðandi í 2. sæti D-listans.