Ölfusið er áfangastaður sem á fullt inni þegar það kemur á móttöku ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra. Við eigum að geta eflt Ölfusið sem áfangastað, m.a. vegna þess hversu stutt það er frá höfuðborginni, flugvellinum og vonandi bráðum farþegaskipahöfn. Mun þyngra vega hins vegar náttúruperlurnar okkar!
Ölfusið er stórt og af nægu er að taka þegar telja á upp náttúruperlurnar á svæðinu. Hengilsvæðið geymir um 110 km af göngu-, hlaupa- og hjólaleiðum, gullfallega náttúru og sögu bak við hvern stein. Ekki má gleyma heitu ánni í Reykjadalnum sem þúsundir heimsækja á ári hverju. ON hefur útbúið ótrúlega skemmtilega samantekt af gönguleiðunum sem ég hvet alla til að kynna sér.
Skötubótin, svarta ströndin í Ölfusi, er perla sem er ótrúlega ósnortin 10 km löng þar sem hægt er að vaða, surfa, ganga og njóta, en á góðum sumardegi er Skötubótin sannkölluð sólarströnd. Hún stutt frá höfuðborginni og mun hættuminni en aðrar frægar svartar strendur á íslandi.
Þá eigum við hér fleiri perlur, t.d. Raufhólshellinn sem er mjög þekktur og uppbygging hans vegleg, og Selvoginn sem geymir svipmynd af fyrri tímum. Þorláksskógar verða svo innan skamms sannkölluð perla útivistar og náttúru, og nýr miðbær í Þorlákshöfn mun bjóða upp á aukna möguleika í mannlífi, menningu og þjónustu.
Við á D-lista vitum að það er samt ekki nóg að vera með þessar náttúruperlur hér í bakgarðinum heldur þurfum við að kynna perlurnar okkar og efla með ábyrgum hætti. Með því móti erum við líka að styðja við rekstur næstum 50 ferðaþjónustufyrirtækja sem starfrækt eru í Ölfusinu.
Ferðamálastofa og Íslandsstofa hafa með átökum eins og Inspired by Iceland og Meet in Iceland verið að gera frábæra hluti til að kynna Ísland sem heild sem einn af eftirsóknarverðustu áfangastöðum í heiminum. En þegar að ferðamaðurinn er kominn til landsins, þá er það undir hverju sveitarfélagi komið að fá hann til að dvelja og njóta hjá sér.
Við viljum leitast við að efla ferðaþjónustu í sveitarfélaginu með það að markmiði að gestir okkar stoppi við og upplifi allt sem við höfum að bjóða. Til þess að svo megi verða þarf samhliða að byggjast upp gistirými í mismunandi gæða- og verðflokkum, veitingastaðir sem mæta ólíkum þörfum, afþreying sem hentar öllum aldri og getu, og aðgengi að náttúruperlunum okkar þarf að vera gott.
Við viljum taka nýsköpun í ferðaþjónustu í Ölfusi fagnandi, engin hugmynd er of lítil eða of stór og eitt það skemmtilegasta við alvöru frumkvöðla er að þeir eru óþreytandi við að gera hugmyndir sínar að veruleika. Ég hef persónulega reynslu af því hversu mikill stuðningur Ölfus cluster er fyrir frumkvöðla og hvet alla sem eru í frumkvöðlastarfi að leita til þeirra. Ég sé fyrir mér að ferðaþjónustuaðilar í sveitarfélaginu taki síðan höndum saman um að vinna að sínum sameiginlegu hagsmunum, jafnvel í samstarfi við aðra aðila í nærumhverfinu. Ég mun einnig leggja mitt að mörkum til að tryggja að ferðaþjónustan hafi sterkan málsvara í nefndum og ráðum sveitarfélagsins.
Það er mín trú, að ef við vinnum saman, þá getum við gert Ölfusið að sterku ferðaþjónustusvæði og öll notið góðs af í formi bættra atvinnutækifæra, aukinnar þjónustu og fjölbreyttara mannlífs.
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir,
8. sæti D-listans, hótelstjórnandi og frumkvöðull.