Hvernig leggjum við grunn að fjölbreyttu atvinnulífi?

Við á Íbúalistanum viljum leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi. Sóknarfæri eru til staðar og uppbygging verður að vera í sátt við íbúa og umhverfi. 

Höfnin

Uppbygging í kringum höfnina hefur verið mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið. Það kemur fram í beinum tekjum fyrir sveitarfélagið, beinum og óbeinum störfum tengdum flutningunum og aðdráttarafl fyrir ný fyrirtæki. Það liggur í loftinu að skemmtiferðaskip fari að koma hingað og við þurfum að geta tekið á móti þeim með mannsæmandi hætti.Við hvetjum ykkur til að lesa grein Steingríms, frambjóðanda Íbúalistans um ferðaþjónustu og var m.a. birt á vef okkar íbúalistinn.is. Það eru gríðarlega mörg tækifæri sem fylgja því að vera með inn og útflutningshöfn í Ölfusi og alveg víst að fleiri og fleiri fyrirtæki eiga eftir að sækja í að byggja upp sína starfsemi í nálægð við þessa tengingu við Evrópu.  

Við viljum setja þrýsting á rafvæðingu hafnarinnar og skipa og fer það saman við stefnu Íbúalistans að sveitarfélagið verði kolefnishlutlaust árið 2030 og stefnu stjórnvalda að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Það mun einnig hafa sérstaklega jákvæð áhrif á íbúabyggðina og skila sér í betri hljóðvist, hreinna lofti og ánægðari íbúum.

Grænir iðngarðar

Íbúalistinn hefur kynnt sér græna iðngarða, þar sem áhersla er á sjálfbærni, umhverfi, nýsköpun og hringrásarhagkerfi. Akranes  er langt komið í þessari vinnu og er mikil eftirspurn fyrirtækja að komast í þær lóðir sem voru skipulagðar undir þessa starfsemi. 

Til þess að þú lesandi góður áttir þig betur á því hvað grænir iðngarðar eru þá fylgir hér örlítil útskýring:

Iðngarður nær yfir tiltekið svæði þar sem sameiginlegt skipulag og framtíðarsýn ráða för. Grænn iðngarður styður við sjálfbærni með því að innleiða efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfissjónarmið í skipulagi, stýringu og framkvæmd. Hringrásarhugsun er lykilatriði þar sem markmiðið er að fullnýta orku- og efnastrauma og markmiðið þannig að mengun og úrgangur verði í lágmarki og sem minnst þurfi að auðlindum og aðföngum. 

Grænir iðngarðar eru í samræmi við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra nýsköpun og uppbyggingu, bætta nýtingu auðlinda og markmiðið um ábyrga neyslu og framleiðslu. Ef sveitarfélagið Ölfus ætlar að vera samkeppnisfært í nánustu framtíð verðum við að fara að vinna í átt að þessum markmiðum. Við viljum ekki að Sveitarfélagið Ölfus verði eftirbátur annarra sambærilegra sveitarfélaga heldur leiðandi. Við viljum ekki að fyrirtæki sem velja það að starfa GEGN þessum gildum sem eru að verða og munu vera ráðandi í atvinnulífi sækist í Ölfus þar sem lóðir hafa verið seldar á mjög lágu verði og eins og formaður bæjarráðs sagði á opnum íbúafundi í Þorlákshöfn, þá hefur ekki verið sagt nei við neinum sem hingað leitar. Við á Íbúalistanum erum sannfærð um að Sveitarfélagið Ölfus geti haft kjark, metnað og sjálfsvirðingu til þess að velja þau fyrirtæki sem hingað vilja koma með tilliti til lífsgæða íbúa, umhverfis og samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækjanna. 

Við teljum að það ætti líka að vera keppikefli að laða í sveitarfélagið lítil og meðalstór fyrirtæki í bland við stóru fyrirtækin sem nú þegar eru að hreiðra um sig, eins og Landeldi og styrkja okkur enn frekar sem matvælahérað. Þá má ekki gleyma að hugsa vel um þau fyrirtæki sem eru hér nú þegar og hafa reynst sveitarfélaginu dýrmæt. 

Ferðaþjónustan

Við þurfum að byggja upp ímynd Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir ferðamennsku til framtíðar. Það skilar sér sem spennandi valkostur fyrir erlenda og innlenda ferðamenn og aðlaðandi fyrir fólk að flytja í sveitarfélagið. Tækifærin eru fjölmörg, mikið af spennandi útivistarmöguleikum, eins og t.d. Reykjadalurinn, strandlengjan, eftirsótt brimbrettasvæði, umhverfið við Selvoginn og Ölfusána, en hér er einnig ýmis afþreying eins og hestaleigur, golfvöllur, fjórhjólaleigur, bátsferðir, mótorkross völlur o.fl.  Sveitarfélagið þarf að styðja vel við þessa innviði sem nú þegar eru hér og ráðast í kynningarátak til þess að vekja athygli á því hversu spennandi viðkomustaður Sveitarfélagið Ölfus er. 

Innviðir

Við viljum styrkja innviði, sjá til þess að ljósleiðurum verði komið að öllum lögbýlum, laga vatnsveitumál og þrýsta á ríkisvaldið um að koma gatnakerfinu í viðunandi stand þar sem öryggi íbúa verður í forgrunni. Þá þurfum við að passa uppá mannauðinn í sveitarfélaginu. Það eru fleiri aðkallandi hlutir sem verður að skoða á komandi kjörtímabili eins og frárennsli í elsta hluta Þorlákshafnar og fráveitumál. 

Bjartir tímar

Það er óhætt að segja að það séu bjartir tímar framundan, tækifærin eru sannarlega á hverju strái en það skiptir máli hvernig staðið er að málum. Horfa þarf til framtíðar, marka stefnu í atvinnumálum í Sveitarfélaginu Ölfusi og tryggja það að uppbygging atvinnulífs verði ekki á kostnað lífsgæða íbúa. Fáum við fylgi ykkar þá munu áherslur okkar vera áherslur ykkar um jákvæða uppbyggingu fyrir íbúa, umhverfi og fyrirtæki, öllum til góða.

Ása Berglind Hálmarsdóttir, oddviti Íbúalistans

Sigfús Benóný Harðarson, frambjóðandi í 4. sæti Íbúalistans