Íþróttasvæði sveitarfélagsins voru mín leiksvæði frá unga aldri og ég stundaði fjölmargar íþróttagreinar bæði sem leikmaður, þjálfari og sjálfboðaliði. í Sveitarfélaginu Ölfusi er mjög góð aðstaða til íþróttaiðkunar og hafa margir íþróttamenn sýnt afburða árangur á íþróttasviðinu um langt skeið. Yfirvöld í sveitarfélaginu hafa staðið þétt við bakið á íþrótta og æskulýðsstarfi, bæði varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja og beinum fjárstuðningi við íþrótta- og frístundafélög.
Áfram þarf að huga að uppbyggingu í ört vaxandi sveitarfélagi og fyrirliggja endurbætur á sundlaugarsvæði með rennibrautum og á útisvæði. Fjölga þarf búningsklefum í íþróttamiðstöðinni og stækka þarf líkamsræktina til að geta tekið á móti fjölgun íbúa og gesta í sveitarfélaginu. Blómlegt íþróttalíf og fjölgun á iðkendum jókst töluvert með tilkomu glæsilegs fimleikahúss. Við viljum vera leiðandi í jafnréttismálum og bæta aðstöðu fyrir öll kyn. Við viljum hefja vinnu við byggingu á fjölnota íþróttamannvirki og þá ber okkur skylda til að vanda vel til verka í hönnun og nýtingu svæða. Það er mikilvægt að hugsa til framtíðar og sjá fyrir okkur hvernig íþróttasvæði verða eftir 10-20 ár og haga vinnu við hönnun í samræmi við það.
Gróska er í sveitarfélaginu og er ánægjulegt að fólk í sveitarfélaginu kemur hugmyndum sínum á framfæri. Það er frábært að búa í sveitarfélagi sem tekur vel á móti nýjum hugmyndum og styður þær þannig að þær verði að veruleika. Stofnaðar hafa verið tvær nýjar deildir í Ungmennafélaginu Þór, annars vegar rafíþróttadeild og hinsvegar fjallahjóladeild. Yfirvöld í sveitarfélaginu hafa aukið stuðning við íþrótta- og frístundafélög verulega á undanförnum 4 árum sem styrkir rekstrargrundvöll félaga og deilda.
Íþróttir, líkamsrækt og almenn lýðheilsa er ein af okkar öflugastu forvörnum og grunnstoð þegar kemur að heilbrigðri öldrun. Hreyfing til heilsubótar hvort sem hún er stunduð í líkamsrækt, sundlaug eða á íþrótta- og grænum svæðum bæjarins er okkur gríðarlega mikilvæg. Það þarf að fjölga göngu-, hjóla- og reiðleiðum og tengja saman sveit og bæ. Einnig þarf í samvinnu við nærliggjandi sveitarfélög að byggja upp stíga sem bjóða uppá umhverfisvænan ferðamáta.
Hér í Ölfusi höfum við haldið tvö glæsileg unglingalandsmót UMFÍ á undanförnum 15 árum þar sem allir bæjarbúar tóku þátt í að taka vel á móti gestum sem komu alls staðar af landinu. Samfélagið vann vel saman að undirbúningi en það þarf margar hendur til að halda svona stór mót með pompi og prakt. Það hefði aldrei verið hægt nema fyrir tilstilli sjálfboðaliða sem unnu baki brotnu við fjölmörg störf eins og t.d. mótsstjórn, mælingar, dómgæslu, veitingasölu og fleira langt fram á nótt. Samfélag okkar hefur stækkað og verkin hafa orðið fleiri í tengslum við stjórnarstörf, skipulag og fjáraflanir hjá stærri íþróttadeildum og um leið hafa viðburðir stækkað og orðið viðameiri. Við hjá D listanum metum störf okkar fólks mikils og höfum við í okkar stefnuskrá ákveðið að fjármagna ráðningu framkvæmdastjóra fyrir íþróttafélögin sem mun geta létt undir hjá sjálfboðaliðunum til mikilla muna og hjálpað okkur að GERA GOTT enn BETRA !
Ég býð mig fram fyrir hönd D listans í 10. sæti og vil leggja mitt af mörkum til að gera okkar frábæra sveitarfélag enn betra. Mig langar að vitna í og taka undir orð heiðursborgarans og fyrirmyndar konunnar, Önnu Lúthersdóttur, “Við skulum samt ekki gleyma að vera góð við hvert annað, bæði í þessari kosningabaráttu og í lífinu sjálfu. Allir sem bjóða sig fram til starfa í sveitarstjórn eru að hugsa um hag samfélagsins”.
Hjörtur Sigurður Ragnarsson
frambjóðandi í 10. sæti D-listans