Er gaspur nóg!

Nú er úr vöndu að ráða, hvern skal kjósa til að stýra sveitarfélaginu mínu. Ég er fædd í Ölfusi en flyt ung að árum í Hveragerði hvar ég hef búið lengst af en er nú flutt aftur í Ölfusið, bæði sveitarfélögin eru mér kær, eða réttara sagt fólkið og samfélögin í þessum sveitarfélögum eru mér kær, sveitarfélag er bara stofnun eða rammi utan um hvernig við viljum hafa þjónustuna og umhverfið. Og nú þarf ég að velja hverjum ég treysti best til að sinna ungum og öldruðum, fötluðum og svo okkur hinum. Hverjir eru líklegastir til að hafa forgangsröðunina eins og ég raða hér að ofan og hverjir eru líklegastir til að taka ákvarðanir sem byggjast fyrst og fremst og alltaf á almannahagsmunum. Þegar kona tilheyrir ekki neinum af þessum forgangshópum og hefur ekki neina reynslu af þjónustu eða ákvörðunum sveitastjórna í þessum efnum þarf að hlusta, vandamálið við að hlusta er sú tilhneiging að hlusta betur á suma en loka eyrunum þegar ímyndaðir andstæðingar tala.

Íbúar í dreifbýli Ölfus leita eftir þjónustu í Hveragerði eða á Selfoss því Þorlákshöfn er einfaldlega úrleiðis, íbúum í dreifbýli Ölfus og að öllum líkindum líka íbúum Þorlákshafnar væri akkur í því að kjörnir fulltrúar íhuguðu að láta af gaspri og ábyrgðarlausum svörum og útúrsnúningum við umleitunum hvors annars og tækju upp sameiningarviðræður, annað hvort bara Hveragerði og Ölfus en jafnvel væri betra að kippa Árborg á vagninn. Við höfum lært talsvert á sameiningum undanfarna áratugi og getum gert betur, það er ekki náttúrulögmál að öllu sé stjórnað úr einu ráðhúsi. Það má hafa byggingar- og skipulagssvið staðsett á einum stað og menntasvið á öðrum. Við erum ekki betra samfélag með okkar eigin rándýru gasprara í bæjarstjórastólum, við fáum betri bæ með heiðarlegri stjórnsýslu þar sem til dæmis við eigum að geta treyst sanngjörnu og heiðarlegu ferli við úthlutun lóða, að skipulagsbreytingar séu gerðar með hagsmuni bæjarfélags að leiðarljósi en ekki einstakra lóðarhafa.

Mér sýnist á fréttum undanfarinna vikna að rétt sé í báðum þessum sveitarfélögum að gefa núverandi meirihlutum frí frá stjórnun þeirra. Þó ekki væri nema vegna afdrifaríkra og stórra ákvarðana sem eru teknar korter fyrir kosningar og binda hendur næstu stjórnenda bæjarins. Í Hveragerði er það sú stórundarlega ákvörðun að halda áfram að leika rússneska rúllettu með íþróttaaðstöðu íbúa og blása aftur upp tjaldið með ófyrirséðum afleiðingum. Hér hefði verið betra og lýðræðislegra að afla ýtarlegri gagna og annað hvort leyfa íbúum að kjósa um málið eða fela næstu sveitarstjórn að taka ákvörðun. Í Ölfusi er skrifað undir bindandi samkomulag um uppbyggingu miðbæjar við aðila sem enginn eða fáir vita deili á og þetta er gert í kosningavikunni! Hér hefði verið hægt að sýna íbúum Ölfus þá virðingu að kynna málið fyrir þeim og binda ekki hendur komandi sveitarstjórnar á þennan hátt sem gert var, rétt fyrir kosningar.
Megi niðurstaða kosninganna á laugardaginn vera okkur öllum hagfelld, að valdir verði í sveitarstjórn vandað, heiðarlegt og duglegt fólk.

Bryndís Sigurðardóttir
Ölfusingur