Ægismenn unnu sterkan 0-1 sigur á Haukum á Ásvöllum í kvöld í 2. deild karla í fótbolta. Strákarnir byrjuðu leikinn mjög vel og strax á 3. mínútu fékk Pirke dauðafæri á fjær en setti boltann yfir markið.
Haukarnir reyndu mikið að fara á bakvið Ægismenn sem pressuðu stíft en Dabe og Anton voru að glíma vel við það og engin teljandi hætta við markið.
Á 26 mínútu tók Dimi gríðarlega gott hlaup á bakvið vörn Hauka, Bjarki Rúnar setti boltann í svæðið fyrir Dimi sem kláraði gríðarlega vel framhjá markverði Hauka og staðan orðin 0-1.
Næst komst Pirke í gegn en lét verja frá sér, fær frákastið sjálfur og reynir hælspyrnu sem Haukar komu í burtu, einnig kom Gústi sér í fínt færi á vinstri fætinum en markvörður Hauka varði gríðarlega vel.
Undir lok fyrri hálfleiks tóku Haukar frábært langskot fyrir utan teiginn sem stefndi upp í samskeytin en þar mætti Choki á fluginu og varði stórkostlega. Ægismenn fóru sanngjarnt yfir inn í hálfleikinn.
Í seinni hálfleik mættu Haukar grimmir til leiks, en það var hinsvegar Rolin sem komst í dauðafæri, aleinn gegn markmanni Hauka en setti boltann framhjá. Stuttu seinna komst Binni í frábæra stöðu og hefði getað rúllað boltanum fyrir markið þar sem Rolin og Gústi voru mættir en Binni skaut á markið og varði markvörður Hauka gríðarlega vel. Aftur komst Rolin svo í gegn og reyndi að leika á markvörð Hauka sem gekk brösulega og tók hann á endanum skotið framhjá.
Þegar um það bil 70. mínútur voru liðnar af leiknum, eftir að hafa klúðrað öllum þessum færum, fóru Ægismenn að verja forystuna enda mátti varla tæpara standa, Haukar fóru að dæla boltum í átt að markinu og Ægismenn í vandræðum með að halda boltanum innan liðsins, en Choki, Raggi, Anton, Dabe og Keli glímdu virkilega vel við það ástand. Haukar fengu eitt til tvö fín færi eftir langa bolta á fjærstöngina sem Choki varði en annars voru þetta margar fyrirgjafir, nokkrar hornspyrnur og aukaspyrnur ásamt löngum boltum sem Ægismenn vörðust af miklum sóma.
0-1 sigur staðreynd og Ægismenn með 13 stig eftir 5 leiki, frábær byrjun það! Næsti leikur er laugardaginn 11. júní heima í Þorlákshöfn, toppslagur gegn Völsungi frá Húsavík sem eru jafnir Ægismönnum að stigum.