Nú fer að líða að lokum þessarar mögnuðu skammdegishátíðar. Óhætt er að segja að hátíðin sé farin að skipa fastan sess í hugum bæjarbúa. Mörg hús eru vel skreytt og gaman að taka rúntinn um bæinn og skoða. Allir viðburðir hafa verið gríðarvel sóttir í ár og vill Þollóweennefndin koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa nýtt sér og notið þess sem í boði er.
Hátíðin náði ákveðnum hápunkti í gærkvöld þegar Draugaloftið var opnað fyrir gestum í húsnæði gamla Meitilsins. Það var stanslaus röð frá klukkan 19 og til lokunar og yfir 200 gestir sem komu í þetta ægilega draugahús. Þar mátti sjá ófrýnilegan lækni, dauða tvíbura, snarbrjálaðan trúð og fleira miður geðslegt. Öskur gestanna bárust langt út fyrir húsið og margir voru dauðskelkaðir eftir heimsóknina.
Í dag er svo síðasti dagur hátíðarinnar og jafnframt síðasti opnunardagur Draugagarðsins í skrúðgarðinum. Úrslit verða kynnt í myndakeppnum á Facebook og Instagram. Hátíðinni verður svo lokað með glæsilegu Nornaþingi í Versölum þar sem fram koma m.a. Sigga Kling, Guðrún Árný og Daníel okkar Arnarsson. Húsið opnar kl. 19 með fordrykk og um er að ræða Pálínuboð þar sem allar koma með eitthvað með sér á veisluborðið. Enginn bar verður á staðnum. Hægt verður að fá miða við dyrnar á meðan birgðir endast. Miðaverð er kr. 5500 í búning en 6500 ekki í búning. Nornaþingið er skemmtun fyrir konur eldri en 18 ára.
Hér koma nokkrar myndir frá Hrekkja-jazztónleikunum og Draugaloftinu frá í gær.