Á batavegi eftir aðgerðina í Þýskalandi

Hafnarfréttum barst bréf frá Svanhildi Ósk Guðmundsdóttur sem hélt til Þýskalands í stóra aðgerð í sumar.

,,Eins og flest ykkar vita gekkst ég undir stóra aðgerð í þýskalandi þann 19. júlí síðastliðinn vegna flókinna æðavandamála (compression syndrome) Ástand mitt var afar slæmt þegar ég fór í aðgerðina og  þurfti ég orðið að notast við göngugrind ásamt að vera mikið bundin við hjólastól. 

Aðgerðin gekk vel, fyrir utan smá uppákomu, ég fékk sýkingu í meltingarfæri og lyfjabrunn,ásamt mikinn vökva og bólgur í kviðarhol, sem er þó alltaf hætta eftir svona stóra aðgerð og ílengdist ég því aðeins á spítalanum.

Fjölskyldan mín hóf söfnun í sumar til að hjálpa mér að komast í þessa nauðsynlegu aðgerð og voru það 3 yndislegar manneskjur sem að sáu algjörlega um hana fyrir mig. Að þurfa að tapa stoltinu, játa sig sigraða og þiggja þessa stóru gjöf, sem er ein af stærstu gjöfum sem ég hef fengið í mínu lífi, er klárlega það erfiðasta sem að ég hef gert. Allir lögðust á eitt, einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök með einum eða öðrum hætti og gekk söfnunin vonum framar. Okkur hefði aldrei órað fyrir þessum mögnuðu viðbrögðum og náðist að safna fyrir aðgerðinni og ferðakostnaði! 

Það runnu mörg tár niður kinnarnar vikuna áður en að við fórum út. Þetta var algjör rússibani. Það var svo magnað að upplifa allan þennan yndislega stuðning. Það var ólýsanlegt að sjá hvað þorpið okkar stóð saman! Söfnunin náði langt út fyrir Þorlákshöfn og við fengum stuðning, hringingar og skilaboð frá yndislegu fólki úr öllum áttum sem gaf mér mikinn styrk. Hvatningin sem ég fór með út í aðgerðina var ólýsanleg, sömuleiðis var það ótrúlegt að upplifa viðtökurnar þegar við komum heim. 

Bataferlið eftir svona aðgerð er langt og strangt en mjög fljótlega eftir aðgerðina fann ég mikinn mun og er laus við göngugrindina og hjólastólinn sem var ólýsanlegur léttir. Mikil vinna er þó framundan að ná taugakerfinu, meltingunni og líffærunum í betra stand og bíð ég núna eftir því að komast í endurhæfingu inni á Reykjalundi. Ég byrjaði hjá sjúkraþjálfaranum mínum aftur eftir aðgerðina fyrir 2 vikum og margar æfingar sem ég gat alls ekki gert fyrir aðgerðina get ég gert núna og sagðist hann sjá verulegan mun til batnaðar. Maður fagnar hverju litlu skrefi fram á við. Eftir að ég kom heim hef ég einblínt á bataferlið, hugsa vel um mig  og held ótrauð áfram. Ég  á ekki nægilega stór orð sem lýsa hversu óendanlega þakklát ég er! 

Það var vegna ykkar sem að þetta gekk upp! Mig langar að koma ástarþökkum á framfæri  til ykkar allra! Þið eruð algjörlega mögnuð. Þessi ógleymanlegi stuðningur hlýjaði okkur um hjartarætur og veitti okkur þann kraft sem við þurftum til að komast í gegnum þennan hjall. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Takk kærlega fyrir mig

Svanhildur Ósk Guðmundsdóttir“