Vel heppnuð Þollóween-vika að baki

Það fór væntanlega ekki fram hjá neinum að Skammdegishátíðin Þollóween fór fram með pompi og prakt síðastliðna viku hér í Þorlákshöfn. Að vanda voru margir viðburðir í boði alla vikuna og eitthvað fyrir alla aldurshópa.

Það er hópur kvenna sem stendur að þessari hátíð ár hvert og hefur undirbúningur staðið frá því í byrjun september. Það er í mörg horn að líta við skipulagningu hátíðar á borð við þessa og hafa þessar duglegu konur skipt með sér fjölmörgum verkefnum til að allt gangi upp. Fólk er almennt sammála um að hátíðin hafi verið einkar glæsileg í ár og ýmislegt nýtt og spennandi gert sem vonandi er komið til að vera, til að mynda lýsingin fallega í Skrúðgarðinum og flottu límmiðarnir á umferðarljósunum.

Það var metþátttaka á alla viðburði. Fjöldinn sem mætti til dæmis í Skelfilega sundstund var meiri en nokkru sinni og magnað að sjá svona margt fólk samankomið á svæðinu. Það var raunveruleg mannakjötssúpa í pottunum. Vöfflusala Slysavarnarfélagsins Sigurbjargar sló einnig í gegn og gott að fá heita vöfflu eftir sundið.

Draugagarðurinn er alltaf vinsæll hjá ungu kynslóðinni og gaman var að sjá heilu fjölskyldurnar fara saman í garðinn eftir að rökkva tók með vasaljós til að leita að hinum ýmsu hlutum og prófa leiktækin sem sett höfðu verið upp. Allar skreytingar og leiktæki eru heimagerð og þar hefur mikil sköpunargleði ráðið ferðinni.

Grafir og bein er annar viðburður sem ætlaður er yngstu krökkunum. Þá fara þau í Draugagarðinn og leita að hlutum úr beinagrindum og koma þeim svo fyrir í þartilgerðum kistum. Þetta þykir krökkunum mjög spennandi og aðsókn hefur alltaf verið góð, sama hvernig viðrar.

Draugaloftið sló svo sannarlega í gegn og kom fólk víða að til að láta hræða sig. Færri komust að en vildu en það var stanslaus röð upp stigann í gamla Meitlinum þar sem Draugaloftið var til húsa. Að baki þessu magnaða leikhúsi var fimm vikna sleitulaus vinna en tvær úr hópnum hönnuðu, settu upp og leikstýrðu verkefninu. Á föstudagskvöldið fóru svo rúmlega tuttugu leikarar í gervi alls kyns hræðilegra draugavera og hræddu líftóruna úr um 250 gestum sem lögðu leið sína á Draugaloftið þetta kvöld.

Björgunarsveitin Mannbjörg stóð fyrir flóttaherbergi (Escape Room) bæði fyrir yngri og eldri hópa. Er þetta í annað sinn sem Mannbjörg er með flóttaherbergi og skemmst frá því að segja að það var rækilega uppselt allan tímann.

Margt fleira var í boði þessa hræðilegu viku. Hrekkja-Jazz, Grikk eða gott, miðilsfundur og skrautsmiðja svo eitthvað sé nefnt.

Hátíðinni lauk svo á laugardagskvöldið með Nornaþingi í Versölum en þar mættu 140 konur og skemmtu sér saman fram á nótt. Það er óhætt að segja að þar hafi verið galdrar í loftinu.

Þollóween-nefndin á Nornaþingi

Þollóween-nefndin hefur sent frá sér þakkir til þeirra sem styrkt hafa hátíðina með einum eða öðrum hætti eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Það er hægt að fara að hlakka til Þollóween 2023.

Þakkir til styrktaraðila hátíðarinnar