Nú um liðna helgi fór fram seinna haustmót í fimleikum á Egilsstöðum. Saman kom fjöldi liða frá öllum landshlutum en Fimleikadeild Þórs átti þar tvö lið í tveimur flokkum. Snemma á föstudagsmorgun hélt 2. flokkur Þórs af stað með flugi austur á Egilsstaði þar sem þær vörðu helginni. Morguninn eftir, laugardag, hélt síðan 3. flokkur hópfimi af stað þar sem þær voru einnig skráðar til leiks þessa helgina.
Keppni hófst á laugardag þegar 2. flokkur Þórs sem samanstendur af stúlkum 13 og 14 ára kepptu í stökkfimi eldri sem er glænýr keppnisflokkur. Stelpurnar sýndu glæsilegar æfingar á öllum áhöldum þar sem þær voru í fyrsta sinn að keppa eftir nýjum reglum. Keppnin var hörð en liðið gerði sér lítið fyrir og lentu þær í 2. sæti í gólfæfingum og trampólíni og 3. sæti á fíbergólfi. Þessi árangur skilaði stelpunum 3. sæti í samanlögðum stigum sem er einstaklega flottur árangur.
Eldsnemma á sunnudagsmorgun mættu síðan stelpurnar í 3. flokki til keppni þar sem þær kepptu eftir hópfimireglum. Stelpurnar stóðu sig gríðarlega vel en þær kepptu á móti 18 liðum í heildina. Stelpurnar héldu 7 talsins til keppni en í hópfimireglum þurfa að vera 8 í liði. Þrátt fyrir það þá stóðu þær sig virkilega vel og enduðu í 10 sæti samanlagt af 19 liðum. Á haustmóti hjá 3. flokki er skipt upp í flokka, A, B og C. Með þessum flotta árangri tryggðu þær sér 1. sæti í B flokki sem er virkilega frábær árangur.
Svona ævintýri er heldur kostnaðarsamt og það borgar sig ekki sjálft, því miður. Iðkendur ásamt foreldrum stóðu saman að vel heppnaðri fjáröflun þar sem þær meðal annars seldu bæjarbúum og nærliggjandi lakkrís og hlaup ásamt eggjum og einstaklega bragðgóðum heimabökuðum kleinum. Iðkendur í 2. og 3. flokki vilja þakka ykkur fyrir góðar móttökur og frábæran stuðning.
Að auki vill Fimleikadeild Þórs þakka foreldrum og fararstjórum fyrir frábært samstarf og vel unnin störf í kringum ferðalagið. Ásamt því viljum við þakka einstökum fyrirtækjum Þorlákshafnar fyrir sérlega góðan stuðning. Sérstakar þakkir fá Kiwanis, Black Beach Tours, Arnarlax, Fiskmarkaðurinn, Trésmiðja Heimis, Járnkarlinn, Rafvör, Hrímgrund, Ölfusborg og Hafnarnes/Ver. Stuðningur sem slíkur er ómetanlegur þegar kemur að keppnisferðum og gerir ævintýrið enn skemmtilegra.
Fimleikadeild Þórs