Mikið fannfergi er nú í bænum og víða erfitt færi. Starfsmenn áhaldahússins eru komnir á ferðina að ryðja og gæti það tekið nokkurn tíma að hreinsa aðalleiðir í bænum. Mælt er með kósídegi heima með kakó og smákökur, kíkja jafnvel á góða jólamynd í tækinu.
Samkvæmt veðurstofunni verður austlæg átt 10-18 m/s í dag en hægari austantil. Snjókoma og skafrenningur sunnan- og vestanlands sem getur valdið umferðatöfum. Gul viðvörun gildir á suðvesturhorninu til kvölds. Yfirleitt þurrt norðaustanlands en dálítil él við ströndina. Frost 0 til 20 stig, kaldast inn til landsins norðaustantil. Það dregur úr snjókomu seint í dag en það verður áfram hvasst og má enn búast við skafrenningi.
Norðaustan 8-15 á morgun og stöku él fyrir norðan en bjart og þurrt sunnan heiða. Frost 5 til 15 stig. Það hvessir seint annað kvöld.
Norðaustan 13-18 á mánudag og þriðjudag, él norðan- og austanlands en bjartviðri suðvestantil. Áfram kalt í veðri.
Lokað er á Hellisheiði og í Þrengslum.