Við hjá Hafnarfréttum höfum ákveðið að reyna að fá þingmenn Suðurkjördæmis til að skrifa greinar um Sveitarfélagið Ölfus í vetur. Er þetta leið okkar til að vekja athygli þingmanna sem og annarra á sveitarfélaginu en okkur finnst Ölfusið oft gleymast í umræðunni.
Þeir þingmenn sem við höfum rætt við hafa tekið vel í þetta og vonandi munu þeir allir skrifa greinar í Hafnarfréttir í vetur.
Sá þingmaður sem ætlar að ríða á vaðið er enginn annar en Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis. Grein Sigurðar Inga mun birtast á vef okkar í fyrramálið og vonandi mun þetta framtak leggjast vel í lesendur Hafnarfrétta.
Við viljum einnig vekja athygli á að öllum er frjálst að senda greinar til okkar og vonumst við til að íbúar í Ölfusi sem og aðrir muni gera meira að því á næstu mánuðum.
.