kirkja, íþróttavöllurÍ seinustu viku birti Verðlagseftirlit ASÍ upplýsingar um æfingagjöld í knattspyrnu hjá 16 íþróttafélögum víðsvegar um landið. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að töluverður munur er á æfingagjöldum milli félaga og því vel við hæfi að bera niðurstöðurnar saman við æfingagjöld hjá Knattspyrnufélaginu Ægi.

Verðlagseftirlit ASÍ bar saman 4. flokk sem er fyrir 12 og 13 ára börn og svo 6. flokk sem er fyrir 8 og 9 ára börn. „Svo verðlagseftirlitið gæti borið gjöldin saman var fundið út mánaðargjald, þar sem félögin hafa ekki samræmda uppsetningu á gjaldskránni. Sum eru með gjaldskrá fyrir eitt ár í senn, önnur annargjöld og jafnvel er búið að setja sölu á varningi eða vinnu við mót inn í gjaldskrána.“

4. flokkur

Samkvæmt niðurstöðum Verðlagseftirlitsins þá var „dýrast var að æfa hjá Breiðabliki en hjá þeim kostar mánuðurinn 8.250 kr. eða 33.000 kr. fyrir haustönnina sem spannar 4 mánuði. Ódýrast var að æfa hjá ÍR og UMF Selfoss en þar kostar mánuðurinn 5.500 kr. eða 22.000 kr. fyrir 4 mánuði. Verðmunurinn er 50% eða 11.000 kr.“

Ef við berum þetta saman við æfingagjöld hjá 4. flokki Ægis þá kemur í ljós að það er mun ódýrara er að æfa með Ægi en haustönnin þar kostar 17.000 kr. eða 4.250 kr. á mánuði. Verðmunurinn á því að æfa með 4. flokk hjá Breiðablik eða Ægi er því 16.000 kr. eða rúmlega 94%. Ekki kemur fram hversu margar klukkustundir eru á bakvið gjaldið hjá hinum félögunum en hjá Ægi er um að ræða fjórar klukkustundir á viku.

6. flokkur

Hjá 6. flokki var Breiðablik einnig með hæsta gjaldið en „þar kostar mánuðurinn 7.417 kr. eða 29.667 kr. fyrir 4 mánuði. Ódýrast var að æfa hjá KA en þar kostar mánuðurinn 4.667 kr. eða 18.667 kr. Verðmunurinn er 59% eða 11.000 kr.“

Hjá Knattspyrnufélaginu Ægi kostar haustönnin hins vegar 14.000 kr. eða 3.500 kr. á mánuði. Verðmunurinn á því að æfa með 6. flokki hjá Breiðablik eða Ægi er því 15.667 kr. eða tæplega 112%. Ekki koma fram upplýsingar um hversu margar klukkustundir eru á bakvið gjaldið hjá 6. flokk en hjá Ægi eru klukkustundirnar þrjár.

Æfingagjöld

Stuðningur sveitarfélagsins

Ánægjulegt er að sjá að æfingagjöld hjá Ægi séu þetta lág í samanburði við önnur félög. Ein af ástæðunum fyrir því að Ægir getur haft æfingagjöldin þetta lág er að Sveitarfélagið Ölfus styrkir íþróttafélögin myndarlega ár hvert sem skilar sér til iðkenda og foreldra þeirra.

En á sama tíma eru mörg önnur sveitarfélög með frístundastyrki sem foreldrar geta nýtt til að greiða fyrir frístundastarf barna sinna. Það fyrirkomulag er þó til skoðunar í Ölfusi og hefur íþrótta- og æskulýðsnefnd lagt fram tillögu um að gert verði ráð fyrir slíkum styrkjum í fjárhagsáætlun ársins 2016.