Ómar Guðbrandsson þriðji á Íslandsmótinu í póker – Viðtal

omargudbrands01
Ómar einbeittur á Íslandsmótinu um helgina.

„Ég byrjaði að spila póker í kringum 2008 við vinnufélaga og vini en ég byrjaði af meiri alvöru árið 2011,“ segir Ómar Guðbrandsson, sem er fæddur og uppalinn í Þorlákshöfn, í samtali við Hafnarfréttir en hann lenti í þriðja sæti á íslandsmótinu í póker sem lauk um liðna helgi. Um 134 keppendur tóku þátt í ár og námu heildarverðlaun mótsins 6,7 milljónum króna.

„Mótið hófst um þar síðustu helgi í Borgarnesi og var spilað þar til aðeins 9 spilarar voru eftir. Þessir 9 spilarar komust á lokaborðið og fengu allir sem náðu þangað 147 þúsund krónur. Síðan var lokaborðið spilað síðastliðinn laugardag í sal Bridgesambands Íslands. Þegar komið er á lokaborðið hækkar greiðslan mikið fyrir hvert sæti. Fyrsta sæti fékk 1.800 þúsund, annað sæti fékk 1.150 þúsund og ég fékk 778 þúsund fyrir þriðja sætið,“ segir Ómar Guðbrandsson þegar blaðamaður vildi forvitnast meira um Íslandsmótið.

Þetta var fimmta Íslandsmótið sem Ómar tekur þátt í en einnig hefur hann spilað á nokkrum mótum erlendis „Ég hef tvisvar sinnum spilað Estrellas í Barcelona og voru um 1.500 þátttakendur í hvort skiptið. Í seinna skiptið komst ég á dag tvö í mótinu og var ekki langt frá því að komast í peningasæti þegar ég datt út með þvílíkri óheppni. Síðan hef ég spilað smærri mót í Las Vegas, London og Nottingham.“

omar_anikaPókeráhuginn er mikill á heimili Ómars en kærasta hans, Anika Maí, varð Íslandsmeistari í póker árið 2012, fyrst kvenna.  Árið 2013 varð Ómar Íslandsmeistari í pot limit omaha, sem er önnur tegund af póker, hin tegundin og sú vinsælasta í heiminum er texas hold’em. „Árið 2014 vann Anika Íslandsmótið í pot limit omaha og tók við titlinum af mér,“ segir Ómar léttur í bragði.

Póker er viðurkennd hugaríþrótt, eins og skák og bridge, og var samþykkt inn í International Mind Sport Assosiation árið 2010. „Margir telja að póker sé bara heppni og ekkert annað en það er ekki alveg þannig. Þó svo að heppni sé hluti af póker þá er það svo lítill partur að það skiptir litlu máli. Póker snýst um að setja pressu á andstæðingana sína, reyna að fá þá til þess að kalla þig þegar þeir eiga verri hendina og reyna að fá þá til að leggja hendinni sinni ef þeir eiga betri hendina,“ segir Ómar Guðbrandsson að lokum.