Fimm ferðir á dag milli Þorlákshafnar og Hveragerðis

hopbilar01Strætó hefur nú hætt daglegum akstri milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur þar sem ferðirnar voru lítið sóttar. Meðalfjöldi farþega á þriggja ára reynslutímabili milli staðanna náði ekki tveimur farþegum.

Í bókun bæjarstjórnar Ölfuss þann 23. júní síðastliðinn kemur fram að ný leið verði tekin upp á milli Þorlákshafnar og Hveragerðis þann 11. september næstkomandi. Hópbílar hf. munu sinna ferðunum á milli nágranna sveitarfélaganna. Þá verður lögð niður leið 74 á milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka á sama tíma.

Tímatafla leiðarinnar milli Þorlákshafnar og Hveragerðis mun miða við að farþegar komist frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og Selfoss á morgnana og frá Selfossi og Reykjavík til Þorlákshafnar seinnipartinn.

„Við þessa breytingu verður til mun betri tenging á milli Þorlákshafnar og Hveragerðis auk þess sem farþegar munu geta valið hvort þeir taka vagn áfram til Reykjavíkur eða vagn sem fer í austurátt. Auk þess fer vagninn þvert í gegnum sveitarfélagið en með sérútbúnum stoppistöðvum mætti stoppa vagninn á leiðinni.“ Segir í bókun bæjarstjórnar Ölfuss.

Gengið er út frá því að farnar verði fimm ferðir alla virka daga í Hveragerði frá Þorlákshöfn og til baka.