Reksturinn hefur heilt yfir gengið skv. áætlun en ljóst var fyrir að sérstaklega yrðu tveir þættir þungir að mæta, annars vegar almennar launahækkanir vegna endurnýjaðra kjarasamninga og endurskoðunar starfsmats og hins vegar þjónusta við fatlað fólk. Vonir standa til að launahækkanir almennt muni skila sér í auknum útsvarstekjum og því muni þungur rekstur árið 2015 léttast þegar fram í sækir. 11. desember 2015 var ritað undir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga varðandi framtíðarfjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og vonandi er allri óvissu um rekstur málaflokksins eytt með því samkomulagi.
Þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar á liðnu ári hafa þær allar verið fjármagnaðar með eigin fjármagni sveitarfélagsins, þ.e. engin ný langtímalán hafa verið tekin. Áform eru uppi um frekari fjárfestingu á næstu árum sem tryggja munu íbúum sveitarfélagsins öfluga grunnþjónustu og leiða vonandi til uppbyggingar á ýmsum sviðum í þágu íbúa og samfélagsins í heild.
Verklegar framkvæmdir árið 2015
Engar stórar byggingar risu á vegum sveitarfélagsins á árinu en það þýðir samt ekki að ekki hafi verið fjárfest í innviðum samfélagsins.
Framkvæmdir hófust við endurbætur Þorlákshafnar í samstarfi við Vegagerðina. Á vormánuðum var boðið út dýpkunarverkefni en í því útboði var gert ráð fyrir því að fjarlægja um 80 þús. rúmmetra af efni úr höfninni, að hluta til vegna viðhalds og hins vegar sem stofndýpkun. Út frá þeim forsendum var gengið að efnið yrði grafið uppúr höfninni. Megin ástæða þess að ekki var boðið út stærra verkefni var sú að skv. upplýsingum Vegagerðarinnar var það efni sem út af stóð klöpp sem ekki væri hægt að grafa upp án þess að sprengja áður. Framkvæmdin gekk vel og var ákveðið í sameiningu að fá verktakann til að fjarlægja allt það lausa efni úr höfninni sem mögulegt væri í samræmi við hönnun. Í ljós kom að stór hluti þess svæðis sem talið var samanstanda af klöpp var í raun malar- og grjótkambur og þegar upp var staðið var í ár mokað upp úr höfninni um 130 þús. rúmmetrum af efni. Þessi staðreynd gerir það að verkum að kostnaður við dýpkunina verður á endanum verulega lægri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og mun væntanlega flýta allri framkvæmdinni um allt að tvö ár.
Fjárfest var í 9% hlut í leikskólum Hveragerðisbæjar á árinu. Samið var um kaupin á árinu 2014 en eins og áður hefur komið fram þýðir þetta verulega bætt aðgengi íbúa dreifbýlis Ölfuss að skólaplássi fyrir börn á leikskólaaldri. Þá tók sveitarfélagið þátt í byggingu á nýrri eldhússaðstöðu í Grunnskóla Hveragerðis en Sveitarfélagið Ölfus á 14% hlut í skólanum.
Ný grafa var keypt fyrir Þjónustumiðstöð Ölfuss auk sláttutraktors. Grafan hefur reynst vel frá því hún kom til okkar og sérstaklega hefur hún reynst vel í snjómokstri síðustu vikna. Almennt var góður rómur gerður að umhirðu bæjarins sl. sumar en góður tækjabúnaður hjálpar þar mikið til.
Fengin voru ný hlaupabretti í líkamsræktaraðstöðuna í íþróttamiðstöð Þorlákshafnar og úr sér gengnum lyftingatækjum var skipt út fyrir ný. Haldið var áfram með endurbætur á tjaldsvæði og var t.d. grillhúsið klárað að fullu. Grillhúsið hefur fengið mjög góðar viðtökur gesta á tjaldsvæðinu.
Töluverðar framkvæmdir voru við golfvöllinn í Þorlákshöfn í sumar og verður þeim haldið áfram á næstu árum. Vegna mikils ágangs sands verða tvær brautir lagðar af og nýjar brautir teknar í notkun í þeirra stað. Unnið er eftir hönnun og skýrslu Edwins Roald golfvallahönnuðar.
Skrúðgarðurinn í Þorlákshöfn hefur tekið algerum stakkaskiptum á árinu. Göngustígar hafa verið lagðir malbiki og hellum, glæsileg hraungrýtishleðsla er risin heilmiklum gróðri hefur verið plantað. Framkvæmdin við garðinn verður kláruð á næsta ári þar sem haldið verður áfram með gróðursetningu og göngustígar kláraðir ásamt lýsingu. Ætlunin er að ljúka endurbótunum með formlegum hætti næsta sumar á 65 ára afmæli þéttbýlis í Þorlákshöfn. Verður þá afhjúpaður minnisvarði um þetta merkilega grasrótarstarf Kvenfélags Þorlákshafnar.
Listinn sem hér er talinn upp er ekki tæmandi en varpar ágætu ljósi á þær fjárfestingar sem ráðist var í á árinu 2015.
Opin stjórnsýsla og Unglingalandsmót 2018 í Þorlákshöfn
Á árinu hefur verið unnið að endurbótum á aðalskipulagi Ölfuss. Endurbæturnar hafa að mestu snúið að svæðinu í nágrenni Þorlákshafnar en í vinnslu er skipulag sem gerir ráð fyrir iðnaðarsvæðum fyrir matvælatengda framleiðslu vestan Þorlákshafnar, s.s. fyrir fiskeldi og fiskþurrkun. Á fundi í lok október voru á íbúafundi kynntar hugmyndir að nýjum iðnaðarsvæðum fyrir matvælatengda starfsemi auk þess sem kynnt voru áform um mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu í dreifbýli Ölfuss o.fl. Í anda opinnar stjórnsýslu má vænta fleiri íbúafunda um skipulagsmál í sveitarfélaginu á komandi ári.
Tilkynnt var um það á setningarhátíð Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri í sumar að Unglingalandsmótið 2018 verði haldið í Þorlákshöfn. Síðast var Unglingalandsmóti haldið í Þorlákshöfn árið 2008 og verða því 10 ár liðin þegar mótið verður haldið næst. Unglingalandsmót er gríðar stórt verkefni og er undirbúningur þegar hafinn, s.s. með skipan landsmótsnefndar og þarfagreiningar með tilliti til aðstöðu. Þarfagreiningin endurspeglast að stóru leyti í áætluðum fjárfestingum íþróttamannvirkja á næstu árum.
Helstu áhersluþættir í nýsamþykktri fjárhagsáætlun
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árin 2016-2019 var staðfest samhljóða af bæjarstjórn 10. desember sl. Ekki er gert ráð fyrir verulegum breytingum á rekstri sveitarfélagsins á árinu 2016 samanborið við fyrra ár. Helstu áherslubreytingar eru varðandi kynningarmál, viðhald fasteigna svo og umhverfismál í Þorlákshöfn en töluvert meira fjármagni er varið í þessa málaflokka en verið hefur síðustu ár. Ætlunin er að endurbæta heimasíðu sveitarfélagsins og efla með því rafræna stjórnsýslu auk þess sem stefnt er að því að bæta enn frekar ásýnd fallegs bæjar með gróðri og góðri umhirðu.
Stærstu einstöku fjárfestingarverkefnin á næsta ári eru vörumóttaka við eldhús Leikskólans Bergheima auk þess sem endurnýjað verður þak á eldri byggingu skólans, þátttaka í uppbyggingu á nýjum leikskóla fyrir dreifbýli Ölfuss í samvinnu við Hveragerðisbæ, hönnun viðbyggingar við íþróttahúsið sem hýsa mun fyrirhugaða fimleikaaðstöðu og áhaldageymslu, ný og fullkomin flokkunarstöð í Þorlákshöfn, tækjabúnaður fyrir Þjónustumiðstöð auk fjárfestingar í gatna- og fráveitukerfum og íþróttamannvirkjum. Haldið verður áfram með endurbætur hafnarinnar en gert er ráð fyrir því að dýpkun verði að fullu kláruð á árinu og þar með að fullu fjarlægt það sem eftir stendur af Norðurvararbryggju.
Allar framkvæmdir síðustu ára hafa verið fjármagnaðar af eigin fé sveitarfélagsins og því hafa engin lán verið tekin sem auka skuldbindingar. Ekki er gert ráð fyrir nýjum langtímalántökum á árinu 2016 og er gert ráð fyrir því að reiknað skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum verði í lok árs 2016 um 97%. Þetta er vel innan þeirra opinberu marka sem sett eru en lögboðið hámark er 150%.
Skv. þriggja ára áætlun 2017-2019 er áætlað að endurbæta elsta hluta leikskólans Bergheima í Þorlákshöfn og opna þar nýja deild. Áfram verður fjárfest í leikskólum í Hveragerði. Gert er ráð fyrir að fullklára byggingu áhalda- og fimleikaaðstöðu við íþróttahúsið en samhliða stækkuninni verður loftræsting og lýsing í íþróttahúsi bætt. Bætt aðstaða mun fjölga tímum í íþróttahúsinu fyrir iðkendur allra deilda. Framkvæmdin mun eiga sér stað á árunum 2017 og 2018 ef áætlunin gengur eftir. Komið verður upp nýjum potti við sundlaugina árið 2017. Áfram verður fjárfest í gatna- og fráveitukerfum og vatnsveitu en væntingar standa til þess að nokkur uppbygging verði í sveitarfélaginu á næstu árum. Haldið verður áfram með endurbætur hafnarinnar en gert er ráð fyrir því að ný stálþil verði sett við Svartaskers- og Suðurvararbryggjur á árunum 2017 og 2018.
Miklar vonir eru bundnar við fjölgun atvinnutækifæra og aukna þjónustu í sveitarfélaginu með eflingu hafnarinnar í komandi framtíð. Grunnstoðir samfélagsins eru sterkar nú þegar og munu eflast enn frekar á næstu árum. Þessi staðreynd á eftir að hjálpa þegar kemur að fjárfestingu einkaaðila í sveitarfélaginu hvort heldur litið er til atvinnustarfsemi eða einstaklinga því öflugt samfélag dregur að sér fólk og fyrirtæki.
Gunnsteinn R. Ómarsson
Bæjarstjóri