Á síðasta fundi bæjarráðs Ölfuss var lögð fram ályktun bæjarráðs Árborgar frá 28. janúar síðastliðnum þar sem farið er fram á að Vegagerðin breyti skilgreiningu á vetrarþjónustu á Suðurstrandarvegi á þann hátt að þjónusta á veginum verði færð upp um þjónustuflokk en nú fellur vegurinn undir þjónustuflokk 4 líkt og vegir þar sem meðalumferð nemur innan við hundrað bílum í vetrardagsumferð.
Á árinu 2014 var umferð talsvert meiri en hundrað bílar samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar. Þjónustan á veginum hefði því átt að breytast samkvæmt því þegar á því ári.
Miðað við umferð á Suðurstrandarvegi í dag þá ætti hann að vera í þjónustuflokki 3 og vera með vetrarþjónustu fimm daga vikunnar.
„Vegna tíðra lokana Suðurlandsvegar á Hellisheiði og í Þrengslum er mjög brýnt að hafa möguleika á að beina umferð um Suðurstrandarveg. Lokanir á Suðurlandsvegi hafa mikil og neikvæð áhrif á íbúa og fyrirtæki á svæðinu og nauðsynlegt að hafa aðra leið færa milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins/Suðurnesja.“ segir í ályktun bæjarráðs Árborgar.
Bæjarráð Ölfuss tekur undir þessa áskorun bæjarráðs Árborgar og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir við Vegagerðina.
„Bæjarráð Ölfuss áréttar jafnframt nauðsyn þess til að tryggja öryggi vegfarenda og út frá almannavarnarsjónarmiðum að sem fyrst sé ráðist í uppsetningu senda á Suðurstrandarvegi og Þrengslavegi en stór hluti Suðurstrandarvegar og hluti Þrengslavegar eru utan farsímasambands,“ segir í bókun bæjarráðs Ölfuss.