Öskudagurinn var síðasta miðvikudag og stóð FFGÞ fyrir Öskudagsballi. Það var mjög góð mæting og krakkarnir voru allir til sóma. Mikið var dansað, kötturinn var sleginn úr tunnunni og að þessu sinni voru tveir Tunnukóngar og fengu þeir sitthvora peysuna frá Jako með smá nammi í vasanum. (Ef þær passa ekki er ekkert mál að fara og skipta henni hjá Jako, Smiðjuvegi í Kópavogi). Búningarnir voru hver öðrum flottari og mikil vinna hefur verið lögð í suma.
Oft erum við spurð að því af hverju ekki séu veitt verðlaun fyrir flottustu búningana. Ákvörðun var tekin á sínum tíma að hætta því og sleppa þannig keppnishluta þessa dags.
Frábær fyrirlestur var í sal Grunnskólans síðasta fimmtudag, það var rosalega góð mæting og viljum við þakka öllum sem komu. Hermann Jónsson kom og sagði sína sögu, um hvernig er að vera foreldri barns sem lagt hefur verið í einelti frá leikskóla aldri. Hans saga snerti flesta að ég held og margir komu fróðari út og einnig með góða punkta hvernig hægt er að vinna í eineltinu og almennt í uppeldi barna sinna.
Síðasta föstudag fengu krakkar frá 4. bekk og uppúr, Selmu dóttir Hermanns í heimsókn og sagði hún sína sögu. Margir áttu erfitt með sig og láku nokkur tár og fullt af spurningum komu frá krökkunum. Selma stóð sig rosalega vel, sagði frá sínu einelti á svo fallegan hátt og hvernig hún breytti „Hatri í Ást“. Guðrún skólastjóri kom í lokin og sagði nokkur orð og þar stendur setning uppúr þar sem hún sagði: „þið getið ekki strokað út það sem er liðið og er fyrir aftan ykkur, en þið hafið valdið og getið stigið fram strax í dag og horft til framtíðar með breyttu hugarfari og breyttri hegðun. Og taka ykkur Selmu til fyrirmyndar“.
Fyrirlestrarnir voru í boði Foreldrafélags Grunnskólans, Foreldrafélags Bergheima og Íþrótta- og æskulýðsnefndar.
Fyrir hönd FFGÞ
Gyða Steina Þorsteinsdóttir
formaður