Í seinustu viku fóru börn úr Þorlákshafnar- og Eyrarbakkaprestakalli, í sameiginlega fræðslu- menningar- og skemmtiferð í Skálholt. „Allir í aldurshópnum, óháð trúfélagi eða lífsskoðun, voru velkomnir með og nýttu sér það margir.“ Fararstjórar ferðarinnar voru séra Baldur Kristjánsson, séra Kristján Björnsson og djákninn Guðmundur S. Brynjólfsson sem ritaði ferðasögu hópsins.
Í Skálholti voru ungmennin frædd um sögu staðarins og einnig voru húsakynnin og ýmsir merkir gripir skoðaðir. Hópurinn fór svo í leiki „þar sem greinilegt var að allir skemmtu sér, í það minnsta mátti heyra hlátrasköll um allar uppsveitir.“
Börnin skrifuðu „niður bænir sínar og svo fengu þau að prófa að ganga alein inn í kirkjuna og standa ein í hinni mögnuðu Skálholtsdómkirkju, í þögn, ein með sjálfum sér og þannig upplifa helgidóminn. Helgina innra með sér og helgi staðarins. Mörg lýstu þessu sem merkilegri reynslu – sem það og er.“
„Ekki borist fréttir af öðru en að allir hafi komist heilir heim, á sál og líkama, og bara nokkuð glaðir með þennan dag í Skálholti.“
Ferðasöguna í heild má nálgast á heimasíðu Grunnskólans í Þorlákshöfn.