leikskolalod01Ungmennaráð Ölfuss hefur lagt til að sveitarfélagið taki þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög sem UNICEF á Íslandi stendur fyrir. Þau sveitarfélög sem taka þátt í verkefninu skuldbinda sig til að innleiða barnasáttmálann en hann var lögfestur hér á landi árið 2013.

Innleiðingarferli Barnvænna sveitarfélaga tekur tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum, getur sveitarfélagið svo sótt um viðurkenningu, frá UNICEF á Íslandi.

Hugmyndafræði verkefnisins byggir á eftirfarandi hornsteinum:

  • Að réttindi barna séu vel þekkt.
  • Að horft sé til réttinda allra barna.
  • Að börn geti tekið þátt í skipulagningu, þróun og mati á þjónustu sem er ætluð þeim.
  • Að börn geti tekið þátt í þróun og skipulagningu umhverfis síns.
  • Að börn geti tekið þátt í ákvörðunum sem skipta þau máli.
  • Að börn geti tekið þátt í félags- og menningarlegri starfsemi og viðburðum á vettvangi sveitarfélagsins.
  • Að börn búi við öruggt umhverfi.
  • Að börn séu metin að verðleikum.
  • Að ákvarðanir í málefnum barna séu teknar með heildstæðum hætti, þar sem fyrst og fremst sé horft til þess hvað börnunum sé fyrir bestu.
  • Að raunprófuð þekking og reynsla liggi til grundvallar ákvörðunum sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti.