Sunnudaginn 22. maí var gengin fyrsti hluti nýrrar pílagrímagönguleiðar frá Strandarkirkju til Skálholts. Þessi hluti göngunnar er um 18 km langur og tóku um 50 manns þátt í henni í blíðskaparveðri.
Upphafsmaður að þessari pílagrímagöngu er Edda Laufey Pálsdóttir í Þorlákshöfn, sem fékk í lið með sér góða menn, konur og karla, sem á undanförnum mánuðum hafa lagt á ráðin með gönguleiðina og annast undirbúning allan í samvinnu við Ferðafélag Íslands og sveitarfélögin á svæðinu.
Gangan hófst með stuttri helgistund í Strandarkirkju þar sem sr. Baldur Kristjánsson sagði frá upphafi kirkjuhalds á Strönd. Hann bað göngumönnum Guðs blessunar á göngunni og sagði þeim síðan að drífa sig af stað. Áður var þó sunginn sálmur Matthíasar Jochumssonar Fögur er foldin, sem byrjar svo:
Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fararstjórar að þessu sinni voru Edda Laufey Pálsdóttir og Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þeim til aðstoðar var sr. Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis. Þær Edda og Barbara fræddu göngumenn um sögu þess svæðis sem gengið var um, en sr. Axel ræddi við göngumenn um almættið, manninn einan og sér og í samfélagi við aðra, hið harða og hið mjúka í náttúrunni og í lífi sérhvers manns. Hann ræddi um líkamann sálina og andann. Á tveimur hvíldarstöðum las sr. Axel úr fjallræðu Krists.
Það voru þreyttir en sælir göngumenn sem komu til Þorlákshafnar eftir um 6 klst. göngu – fullir þakklætis fyrir góðan dag, gefandi samveru og frábæra leiðsögn og handleiðslu þeirra Eddu, Barböru og Axels.
Næsta ganga verður sunnudaginn 12. júní, en þá verður gengið frá Þorlákshöfn um Eyrarbakka að Stokkseyri.
Tíðindamaður Hafnarfrétta tók þátt í göngunni og festi nokkur augnablik úr ferðinni og náttúrufegurðina í myndavél.
MKH