250 manna hljómsveit á stórtónleikunum á laugardaginn

Á föstudaginn hefst Landsmót Sambands íslenskra lúðrasveita en að þessu sinni verður landsmótið haldið í Þorlákshöfn og er það Lúðrasveit Þorlákshafnar sem sér um alla umgjörð mótsins.

Landsmótið er með öðru sniði en vanalega en að þessu sinni verður hápunkturinn stórtónleikar á laugardaginn næstkomandi þar sem þrjár landsþekktar hljómsveitir spila með öllum lúðrasveitum landsins í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn.

Eins og flest allir vita eru það 200.000 naglbítar, Fjallabræður ásamt Sverri Bergmann og Jónas Sigurðsson ásamt Ritvélum framtíðarinnar sem munu spila með lúðrasveitunum. Öllum hljóðfæraleikurum lúðrasveitanna verður skipt niður í þrjár stórar sveitir þar sem hver sveit mun spila með einni af fyrrgreindum hljómsveitum. Í lokin verða svo allar lúðrasveitir sameinaðar í eina risa sveit sem leikur síðan undir með öllum böndunum þannig að þegar mest lætur verða um 250 manns á sviðinu.

Miðasala er enn í fullum gangi á midakaup.is og er hægt að kaupa miða með því að smella hér.