SS byggir 1500 fermetra vöruhús í Þorlákshöfn

voruhus_stungaSS er að hefja byggingu á nýju vöruhúsi á athafnasvæði félagsins í Þorlákshöfn. Vöruhúsið sem verður 1500 fermetrar að stærð verður notað undir innflutning á áburði. Nýja vöruhúsið verður kærkomin viðbót við rúmlega 500 fermetra vöruhús sem fyrir er. Athafnasvæði SS er um 9000 fermetrar við höfnina í Þorlákshöfn sem tryggir búvörudeild félagsins gott rými til frekari vaxtar á komandi árum.

Búvörudeild SS á sér ekki langa sögu en á árinu 2001 hóf SS skipulegan innflutning á tilbúnum áburði fyrir bændur. SS er í afar farsælu samstarfi við norska stórfyrirtækið YARA um innflutning og sölu á áburði. SS skipar upp áburð á 12 höfnum um allt land. Umsvifin eru hins vegar mest í Þorlákshöfn og því er brýnt fyrir SS að bæta enn frekar aðstöðuna í Þorlákshöfn með byggingu á nýju vöruhúsi. SS flytur einnig inn kjarnfóður í samstarfi við DLG í Danmörku en DLG er samvinnufélag bænda. Í dag rekur SS 3 fóðurbíla og eru mikil sóknarfæri framundan. Búvörudeildin selur einnig bætiefni, rúlluplast og sáðvörur. Með nýja vöruhúsinu í Þorlákshöfn verður SS enn betur í stakk búið að þjónusta bændur.

Afar mikilvægt er að koma fjárfestingum af stað til að auka atvinnustarfsemi og það er því ánægjulegt fyrir SS að hefja framkvæmdir í Þorlákshöfn. Þann 3. september s.l. var samið við Landstólpa um kaup og uppsetningu á nýja vöruhúsinu sem er 1500 fermetra stálgrindahús. Landstólpi hefur mikla reynslu á þessu sviði enda hefur fyrirtækið byggt tugi húsa um allt land á undanförnum árum. Auk Landstólpa koma að verkinu fjöldi góðra verktaka á Suðurlandi. Verkfræðistofan Ferill sem SS hefur átt langt og farsælt samstarf við sér um hönnun, umsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrir áramót. Nýja vöruhúsið verður eingöngu fjármagnað úr rekstri SS enda fjárhags- og lausafjárstaða félagsins góð.

Frekari uppbygging við hafnarsvæðið í Þorlákshöfn hefur mikla þýðingu fyrir Sveitarfélagið Ölfuss því að þó Þorlákshöfn hafi á árum áður verið stór sjávarútvegshöfn á landsvísu og þótt enn sé myndarlegur sjávarútvegur starfræktur í Þorlákshöfn, hefur starfsemin við höfnina breyst í áranna rás. Við höfnina hefur byggst upp aðstaða hjá fyrirtækjum sem flytja vörur til og frá landinu í verulegu magni. Má þar nefna auk SS fyrirtækið Lýsi hf. sem flytur inn ómegalýsi sem dælt er á tanka í Þorlákshöfn og fyrirtækið Jarðefnaiðnaður ehf. sem flytur út vikur sem notaður er til ræktunar og í byggingariðnaði. Fjöldi fyritækja er í Sveitarfélaginu Ölfusi og á Suðurlandi öllu sem flytja út og selja hágæða vörur á erlendum mörkuðum. Þessi fyrirtæki hafa fæst kost á því að flytja sínar vörur beint út frá Þorlákshöfn í dag. Mikið hagræði hlýst af fyrir þau fyrirtæki sem geta notað höfnina til inn- og útflutnings þar sem siglingarleiðin frá Evrópu til Íslands styttist verulega sé siglt til Þorlákshafnar í stað Reykjavíkur auk þess sem landleiðin milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur er tiltölulega stutt. Það er því ekki að ástæðulausu sem fyrirtæki eins og SS sjá tækifæri í myndarlegri uppbyggingu í Þorlákshöfn.

Meðfylgjandi mynd er frá því þegar fyrsta skóflustungan var tekin að vöruskemmunni í Þorlákshöfn.