Sveitarfélagið Ölfus styrkir fjölskyldu Heklu Bjargar

Hekla Björg ásamt foreldrum sínum Önnu og Jóni á fermingardaginn
Hekla Björg ásamt foreldrum sínum Önnu og Jóni á fermingardaginn

Bæjarráð Ölfuss samþykkti samhljóða á síðasta fundi bæjarráðs að styrkja fjölskyldu Heklu Bjargar Jónsdóttur um 200 þúsund krónur.

Hekla Björg er 14 ára gömul og er dóttir Jóns Haraldssonar og Önnu Kristínar Gunnarsdóttur.

Hekla Björg fæddist með hjartagalla og hefur sökum þess farið í nokkrar aðgerðir til Boston.

Í nóvember síðastliðnum veiktist Hekla Björg alvarlega og var send í kjölfarið til Boston í aðgerð á hjarta.

Ferðin reyndist mjög kostnaðarsöm, en heppnaðist vel.

Var því samþykkt samhljóða á bæjarráðsfundi að veita fjölskyldu Heklu Bjargar 200 þúsund króna styrk í ljósi þessara erfiðu aðstæðna.