Stórskipahöfn í Þorlákshöfn – möguleikar?

hrodmar01Auðlegð sveitarfélagsins Ölfuss byggist m.a. á aðgengi íbúa Þorlákshafnar að sjávarfangi og hafnaraðstöðu ásamt miklu landrými á söndunum í kringum Þorlákshöfn. Atvinnuuppbygging til framtíðar í Ölfusi og á Suðurlandi hefur á liðnum áratugum oftast verið tengd höfninni í Þorlákshöfn. Í því sambandi hafa menn einkum horft til stóriðju – álvers og/eða kísilvers. Bæjarstjórn Ölfuss ályktaði í apríl 2012 að þess yrði farið á leit við þingmenn kjördæmisins að þeir leggðu fram þingsályktunartillögu þess efnis að metin yrði þjóðhagsleg hagkvæmni þess að byggja stórskipahöfn í Þorlákshöfn.

Stórskipahöfn í Þorlákshöfn er sú stóriðja sem Sveitarfélagið Ölfus og Suðurlandið þarfnast. Ljóst er að samfara höfninni mun flutningsstarfsemi aukast verulega. Líklegt er að vaxandi fjöldi skemmtiferðaskipa muni sækja til Þorlákshafnar. Hafnartengd atvinnustarfsemi mun vaxa og ýmis léttaiðnaður með útflutningstengda starfsemi leita til Þorlákshafnar.

Á síðasta ári gerði Markaðsstofan Argus, að ósk Bæjarstjórnar Ölfuss og Hafnarsjóðs, úttekt á mögulegri stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Í skýrslunni er leitast við að bera saman kosti stórskipahafnar fyrir stóriðju í Þorlákshöfn og sambærilega starfsemi annars staðar á Íslandi. Einnig var unnin almenn greining á styrkleikum og veikleikum í tengslum við stórskipahöfn í Þorlákshöfn.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að þar sem áhersla er lögð á mengandi stóriðju henta aðrar hafnir betur fyrir stórskipahöfn en Þorlákshöfn. Í því tilliti er einkum litið til kostnaðar við gerð hafnarinnar, en í ljós kom að stórskipahöfn í Þorlákshöfn er tvöfalt dýrari en sambærileg höfn til að mynda á Keilisnesi. Þessi aukni kostnaður við gerð hafnar í Þorlákshöfn stafar einkum af mismunandi stærð og legu varnargarða og dýpkunarþörf. Önnur mikilvæg ástæða þess að óhentugt er að ráðast í uppbyggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn er fjarlægð iðnaðarsvæðis frá sjálfri höfninni.

Í skýrslu Argusar kemur einnig fram að ef stórskipahöfn á að vera raunhæfur möguleiki í framtíðinni verður stórskipahöfnin að höfða til og tengjast áherslum á umhverfisvænan og hafnsækinn iðnað. Höfn byggð á umhverfisvænni starfsemi yrði sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og því einstæð! Eftirfarandi starfsemi myndi líta á stórskipahöfn í Þorlákshöfn sem áhugaverðan kost:

Matvælaiðnaður – uppskipun, umpökkun og áframsending til Evrópu og Bandaríkjanna. „Hillulíf“ ferskvöru sem landað er í Þorlákshöfn og flutt með bílum til Reykjavíkur lengist um einn sólarhring borið saman við ferskvöru sem siglt er með til Reykjavíkur. Hér eru því miklir hagsmunir í húfi fyrir verslunina í landinu.

Vatnsátöppun – miklir möguleikar á frekari þróun vatnsátöppunar í sveitarfélaginu. Í því sambandi má nefna flutning á vatni í gámum sem er bæði mjög umhverfisvæn og hagkvæm flutningsleið.

Góðir möguleikar fyrir aðrar iðngreinar sem þurfa mikið vatn í hæsta gæðaflokki.

Heitt vatn í sveitarfélaginu. Er þar einkum litið til affallsvatnsins frá Hellisheiði sem má leiða til strandar í Þorlákshöfn. Jarðhitavatnið má m.a. nota til frekari uppbyggingar í fiskeldi.

Endurnýjanleg orka á Hellisheiði, þ.e. góður aðgangur að grænni orku innan Sveitarfélagsins Ölfuss.

Hér hefur einungis verð tæpt á nokkrum atriðum úr skýrslu Argusar. Frekari upplýsingar um skýrsluna má væntanlega fá á skrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss (www.olfus.is). Ljóst má vera að listinn yfir mögulega atvinnusköpun er hér ekki tæmandi.

Með skýrslu Argusar hefur verið unnin ákveðin grunnvinna. Því liggur beint við að spyrja: Hvernig ætlar Sveitarfélagið Ölfus ásamt öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi að tryggja framgang þessa verkefnis? Stórskipahöfn í Þorlákshöfn er stóriðja Suðurlands! Sameiginlegt átak Sunnlendinga er hér nauðsynlegt!

Hróðmar Bjarnason, fulltrúi Ö-listans í bæjarstjórn Ölfuss