Ungur Þorlákshafnarbúi valinn til þátttöku í Nordic Light 2014

baldur_webBaldur Viggósson Dýrfjörð, nemandi í Grunnskólanum í Þorlákshöfn er einn af 75 ungmennum frá öllum Norðurlöndunum sem taka þátt í samnorrænu menningarhátíðinni Nordic light næsta sumar.

Um 500 ungmenni sóttu um þátttöku seinni hluta síðasta árs og voru 17 af þeim 75 ungmennum sem taka þátt, frá Íslandi.

Menningarhátíðin er fyrir ungt fólk á aldrinum 14-17 ára og ber nafnið Nordic light 2014.  Þetta verður umfangsmesta menningarhátíð fyrir ungmenni sem haldin hefur verið á Norðurlöndum og langstærsta menningarverkefni fyrir ungt fólk sem Norræni Menningarsjóðurinn og þar með Norræna ráðherranefndin hafa staðið að.  Hátíðin hefur verið tilnefnd sem „norræni menningarviðburður ársins“ fyrir árið 2014.

Nordic light hefst 20. júlí og lýkur 4. ágúst.  Ungmennunum 75 verður skipt í fimm 15 manna listhópa; leiklist, dans, sirkus, sjónlist og tónlist. Hver hópur ferðast með leiðbeinanda og fararstjóra og þann 20. júlí 2014 hefst hátíðin með vinnustofum í fimm löndum.  Í hverri vinnustofu eru einnig 2-3 þarlendir listamenn sem vinna með hópnum og á hverjum stað er 15 ungum skapandi heimamönnum boðið að taka þátt í vinnustofunni.

Baldur tekur þátt í tónlistarhópnum.  Í þeim hópi eru þrír drengir frá Íslandi.  Tónlistarhópurinn fer fyrst til Ilulissat á Grænlandi, 200 km fyrir norðan heimskautsbaug. Þar munu tveir grænlenskir tónlistarmenn vinna með þeim og kynna þjóðlega tónlist, sérstaklega trommuhefðina.  Í kjölfarið verður listasmiðja í Garðabænum þar sem elektrónísk tónlist verður í forgrunni undir leiðsögn félaganna í Stop Wait Go. Þaðan liggur leiðin til Utsjoki á Norður Finnlandi þar sem unnið verður með Joik tónlistarmönnum.  Lokaáfangastaðurinn er síðan Joensuu í Austur Finnlandi þar sem allir hóparnir koma saman.  Þar sýnir og flytur hver hópur brot úr því sem unnið hefur verið í listasmiðjunum, á lokahátíð þessa tveggja vikna ævintýris.

Baldur hóf sex ára gamall að læra á fiðlu við Tónlistarskóla Árnesinga. Á síðasta ári byrjaði hann líka að læra á píanó og hefur gengið mjög vel í tónlistarnáminu. Með umsókninni þurfti að senda inn stutt myndband og fékk Baldur aðstoð Ingvars Jónssonar, kennara við Grunnskólann í Þorlákshöfn, þar sem hann er nemandi, til að útbúa myndband þar sem hann notaði brot úr upptöku á uppsetningu Leikfélags Ölfuss á „Rummungi Ræningja“, en þar lék Baldur stórt hlutverk. Einnig tók hann upp eigin flutning á verki eftir Bach á fiðluna og klippti saman áður en hann sendi.

Baldur hlakkar mikið til að taka þátt í þessu verkefni og ekki er verra að með honum í tónlistarhópnum verður Kári, besti vinur hans úr leikskólanum Sælukoti í Reykjavík, en þeir hafa ekki sést síðan Baldur flutti til Þorlákshafnar, fimm ára gamall.