Framkvæmdir á stærsta minkabúi landsins hefjast í sumar

minkur01Fyrirhugað er að framkvæmdir á stærsta minkabúi landsins hefjist í sumar í Þorlákshöfn.

Þeir sem að búinu standa eru þeir Stefán Jónsson og Ármann Einarsson en með þeim eru Guðbrandur Örn Einarsson og Brynjar Gígja.

Í samtali við Sunnlenska fréttablaðið sagði Ármann að þeir stefni á að byrja á fyrsta áfanganum í sumar sem eru 4.300 fermetrar en húsið verður um 21 þúsund fermetrar fullklárað. Hann segir minkabúið verði það langstærsta á landinu með 10 þúsund læðum.

Um tólf starfsmenn koma til með að vinna í búinu en heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um einn milljarður króna.

Ármann segir ennfremur í samtali við blaðið að Sveitarfélagið Ölfus styðji bygginguna heilshugar en þeir bíða núna eftir niðurstöðu ríkisvaldsins og eru bjartsýnir á að fá tilskilin leyfi þaðan.