Áskorun Benedikts – Dagur 1

benni01Þá hefst áskorun mín til íbúa hérna um kosti Þorlákshafnar (1/10)

Þeir þekkja það sem eiga börn að þegar sæðisskotin breytast í fóstur þá breytist allt. Fram að því er maður mest að hugsa um rassgatið á sjálfum sér en þegar þau koma í heiminn eru þau í öllum efstu sætunum á forgangslistanum.

Ég hef heyrt frá mörgum í gegnum tíðina hvað þeim fannst yndislegt að alast upp út á landi og bara síðast í dag var ég að tala um þetta við rithöfundinn Þorgrím Þráinsson sem ólst upp fyrir vestan. Lengi vel fór ég ekki mikið austur fyrir Rauðavatn nema helst til að skjótast í útileiki í körfunni eða smá skrepp upp í bústað. Núna hef ég búið í þessu 1500 manna plássi, sem ég kalla úthverfi Reykjavíkur, (því það er ekki hægt að kalla stað sem er 30 mínútum frá Reykjavík „út á landi“), með þrjú börn og skil núna hvers konar forréttindi það eru fyrir börn að alast upp á svona stað.

Ég tala nú ekki um hversu töluvert rólegri foreldranir geta verið þegar börnin eru úti að leika. Að þurfa ekki alltaf að vera tékka á þeim og alltaf að vera spá í hvar þau eru osfv. Hérna þekkja allir börnin í plássinu og maður veit að það er passað upp á þau hvar sem þau eru. Hérna er síðan stutt í allt þannig að foreldrar þurfa ekki að vera eins og einkabílstjórar ráðherra allan daginn að fara með og sækja í skólann, skutla í íþróttir, síðan í tónlistarskólann, danstíma eða eitthvað annað.

Fyrir foreldra sparast svona ca. 2 klukkutímar í sólarhringnum sem færu í traffíkinni í Reykjavík. Hversu verðmætir eru 2 auka tímar á dag í þessu stutta lífi? Hver vill ekki fá fleiri tíma í sólarhringinn?

Þegar ég tók þá stóru áskorun fyrir 4 árum að taka við liði um miðja 1. deild, staðsett rétt fyrir utan Reykjavík, stóð alltaf til að ég myndi keyra á milli. Við ákváðum síðan að prófa búa hérna í eitt ár. Við sjáum aldeilis ekki eftir því og erum ekkert smá sátt við að hafa gefið börnunum okkar þau forréttindi að alast upp á svona stað.