,,Ég meina hver tekur ekki hænu með sér til tannlæknis?“

mynd1
Stelpurnar með stúlkunum á munaðarleysingjaheimilinu Malaika

Í byrjun maí mánaðar hélt Elísabet Ásta Bjarkadóttir, nemi á fimmta ári í tannlæknisfræði við HÍ, ásamt tveimur bekkjarsystrum sínum, þeim Láru Hólm og Unni Flemming, upp í ævintýraferð til Tansaníu, til að láta gott að sér leiða.

Þær ferðuðust til Tansaníu með um 50 kíló af varningi sem skilja átti eftir í Tansaníu, frá fólki og fyrirtækjum hér á landi sem studdu dyggilega við bakið á þeim. Við fengum Elísabetu Ástu til að segja okkur aðeins frá ævintýri þeirra.

,,Aðdragandinn að ferðinni var heilt ár sem við notuðum í að safna pening og undirbúa ferðina. Í undirbúningnum tók svo ferðatilhögun smá breytingum, þar sem Margrét Pála Ólafsdóttir, oftast kennd við Hjallastefnuna, setti sig í samband við okkur. Hún er ein af þeim sem sjá um foreldrafélagið Malaika, sem er stuðningsfélag heimilis nokkurra munaðarlausra stúlkna í Dar Es Saalem í Tansaníu og hún var ekki lengi að sannfæra okkur um að hefja ferðina þar“ sagði Elísabet Ásta í samtali við Hafnarfréttir.

mynd2
Unnur, Lára, tannlæknir spítalans og Elísabet

Stelpurnar lentu í Dar Es Saalem eftir langt ferðalag þann 8.maí. ,,Fyrsta verkefni okkar var að heimsækja stúlkurnar á Malaika og þvílíkar gersemar sem stúlkurnar eru og frábært starf sem þessi hópur íslendinga er að vinna. Við fórum yfir tannheilsu þeirra og fengum svo aðstoð frá tannlæknanema við háskólann í Dar Es Saalem, en skólann heimsóttum við svo tveimur dögum síðar og sömdum um þessa aðstoð fyrir stúlkurnar“.

Næsti áfangastaður stúlknanna var svo Bashay þorp í Karatu héraði. ,,Það sem stakk mann strax við komuna í þorpið var hve fátæktin var mikil, en engu að síður var ótrúleg gleði og umhyggja sem bjó í fólkinu“. Þær bjuggu á Tanzanice Farm á meðan á dvöl þeirra stóð, sem er gistiheimili rekið af Önnu Elísabetu Ólafsdóttur.

,,Aðstæðurnar úti voru öllu frumstárlegri en við þekkjum hér heima, lítið sem ekkert rafmagn, hreinlætið ekki mikið, vöntun á ýmsum tækjum og tólum sem í okkar samfélagi eru talin nauðsynleg til að sinna tannlæknastörfum og margt fleira. Hver einn og einasti dagur var ákveðin upplifun með mörgum einkennilegum og eftirminnilegum atvikum, ég meina hver tekur ekki með sér hænu til tannlæknis?“ segir Elísabet glottandi er hún rifjar upp atvik þar sem kona sem mætti í stólinn til þeirra stúlkna, kom með hænu í poka á tannlæknastofuna, sem fékk svo að leika lausum hala á stofunni.

Masai ættbálkurinn
Masai ættbálkurinn

Um helgar reyndu stúlkurnar svo að nýta tímann sem best í að kynnast landi og þjóð. ,,Í Tansaníu er gríðarlegur fjöldi ættbálka og vorum við svo heppnar að fá að heimsækja nokkra þeirra. Við fórum á veiðar með Hadzabe mönnum, dönsuðum með Masai-um, sungum með Datoga konum og svo mætti lengi telja. Eins og gengur og gerist komu inn á milli erfiðar stundir, því maður upplifði oft ákveðið vonleysi því að þörfin er svo gríðarlega mikil og aðstoðin svo takmörkuð.

Þegar upp er staðið, þá er það fólkið sem stendur upp úr þessu ævintýri. Ég hélt upphaflega að upplifunin myndi að miklu leyti snúast um athafnir og umhverfi, en það var alls ekki raunin. Allt það fólk sem maður fékk að hjálpa og kynnast, situr ljóslifandi í heilaberkinum og bankar reglulega til að kippa manni niður á jörðina þegar maður gleymir sér í velsældinni.

Á endanum er hjálparstarf bæði óeigingjarnt og gefur manni lífsreynslu sem er ómetanleg og er ég full þakklætis að hafa fengið tækifæri til að hjálpa í raun sjálfri mér og öðrum í leiðinni.“