Rafrænar kosningar í Ölfusi hefjast í nótt

ráðhúsið2Í dag var haldinn blaðamannafundur hjá Þjóðskrá Íslands um rafrænar íbúakosningar sem fara fram í Ölfusi 17.-26. mars. Á fundinum gafst viðstöddum tækifæri til að fylgjast með lokaundirbúningi og uppsetningu kosninganna.

Eins og Hafnarfréttir hafa áður fjallað um, þá verður vilji íbúa til sameiningar sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög kannaður í kosningunum en því til viðbótar verður spurt um skoðun íbúa á tímasetningu bæjarhátíðarinnar Hafnardagar.

Uppsetning kosninganna tókst vel en kosningarnar hefjast formlega kl. 02:00 í nótt. Magnús Karel Hannesson, formaður ráðgjafarnefndar um rafrænar íbúakosningar, lagði áherslu á í máli sínu að þessi kosning væri mikilvæg tilraun á sviði samráðs við íbúa og stórt skref í framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögunum. Hann nefndi að Ölfusingar gætu verið stoltir af þeirri ákvörðun bæjarstjórnar að hafa íbúakosningarnar rafrænar, en með því mörkuðu Ölfusingar söguleg spor í þróun íbúalýðræðis á landsvísu.

Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri, tók undir orð Magnúsar og nefndi að nú væri mikilvægt að tryggja að kosningaþátttaka íbúa verði góð. Sagði hann frá því að á morgun myndu allir íbúar sveitarfélagsins fá sendan bækling um kosninguna og einnig verður reynt sérstaklega að ná til íbúa sem hafa annað móðurmál en íslensku. Íbúar sveitarfélagsins munu því fá góða kynningu á kosningarfyrirkomulaginu.

Hafnarfréttir hvetja alla Ölfusinga til að nýta kosningarétt sinn og taka þátt í þessum sögulega áfanga í þróun lýðræðis á Íslandi.