Nýtt hótel í Ölfusi?

HafidBlaaÁform eru um byggingu hótels í Ölfusi. Þetta kom fram á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss sem haldinn var fimmtudaginn 21. maí sl. Fyrirtækið sem hyggst ráðast í framkvæmdina heitir Makron og gert er ráð fyrir að hótelið verði við hliðina á Hafinu Bláa við Óseyrarbrú.

Hótelið sem fyrirtækið stefnir á að byggja mun vera með 64 herbergi og veitingaraðstöðu. Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að „byggingin muni ekki skerða aðgengi almennings að fjörunni. Fyrirhuguð bygging er lágreist, þannig að hún falli vel að landi og verður í dökkum lit.“

Í fundargerðinni kemur einnig fram að þessi framkvæmd falli vel að þeirri stefnu sem sveitarfélagið hefur varðandi það að efla ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.

„Svæðið hefur aðdráttarafl vegna nálægðar við sjó og útsýnis til hafs og á fjallahringinn til austurs, norðurs og vesturs. Staðurinn er mjög góður fyrir norðurljósaskoðun, ljós frá þéttbýli hafa ekki truflandi áhrif.“