Enn fjölgar í Ölfusi

hafnarberg01Frá því í byrjun þessa árs höfum við hjá Hafnarfréttum fylgst með íbúaþróun í sveitarfélaginu en íbúum fækkaði um -1,1% frá 1. janúar 2014 til 1. janúar 2015 skv. tölum frá Hagstofu Íslands. Um miðjan apríl birtist svo frétt um að þróunin hefði snúist við. Í júlí birtist svo frétt um að Ölfusingar hafi sjaldan verið fleiri.

Sú þróun sem hefur átt sér stað á fyrri hluta ársins hélt áfram í júlí og þann 1. ágúst sl. voru Ölfusingar orðnir 1.961 talsins og þar af búa 1.487 í þéttbýli og 473 í dreifbýli. Þessar tölur eru fengnar úr Granna, sem er gagnagrunnur sem heldur utan um fjölda íbúa í sveitarfélaginu.

Ef miðað er við tölur frá Hagstofunni sem miðast við 1. janúar 2015 og svo nýjustu tölur úr Granna þá má sjá að íbúum hefur fjölgað um rúm 4% frá því um áramót.

Hafnarfréttir hvetja íbúa til að láta aðra vita af þeim miklu kostum sem sveitarfélagið býr yfir svo þessi jákvæða íbúaþróun haldi áfram.