Pössum dýrin okkar

hundur_kottur01Að undanförnu hafa  verið að berast hrikalegar fréttir úr nágrannabæ okkar Hveragerði. Þar á bæ hafa gæludýr verið að deyja eftir að eitrað hefur verið fyrir þeim. Ekki er ljóst hver eitraði fyrir dýrunum  eða hvers vegna.

Í Þorlákshöfn hefur töluvert verið um að fólk sé að týna dýrunum sínum. Inni á facebook hópnum „Íbúar í Þorlákshöfn“ er mjög reglulega auglýst eftir týndum dýrum eða verið að leita að eigendum dýra og finnast nú eigendurnir eða dýrin alltaf. Þannig að ekki er verið að eitra fyrir dýrum í Þorlákshöfn. En það er ljóst að einhverjir eru að brjóta samþykktir um hundahald því hundar mega aldrei vera lausir í þéttbýli.

Við hjá Hafnarfréttum viljum að gefnu tilefni minna dýraeigendur á að passa upp á dýrin sín og fara eftir samþykktum um kattahald og samþykktum um hundahald.

Úr samþykkt um kattahald

Eigendum katta er skylt að gæta þess að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna.

Eigendum katta er skylt að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu á flækingi utandyra frá kl. 24:00 að nóttu til kl. 07:00 að morgni.

Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimili. Kattaræktendur geta þó fengið heimild til að halda fleiri ketti

Sé kvartað undan ágangi katta í íbúðahverfum er dýraeftirlitsmanni heimilt að veiða í búr og eyða ómerktum köttum án þess að það sé auglýst sérstaklega.

Úr samþykkt um hundahald

Hundar mega aldrei vera lausir á almannafæri innan skipulags þéttbýlis.

Umráðamenn hunda verða að hreinsa tryggilega og án tafar upp saur sem hundurinn skilur eftir sig á almannafæri.

Hundaeigendur verða að tryggja að hundur þeirra raski ekki ró íbúa sveitarfélagsins og sé hvorki þeim, né þeim sem um sveitarfélagið fara til óþæginda, með tilliti til hávaða, óþrifnaðar, eyðileggingar verðmæta, slysahættu eða ógnunar.

Óheimilt er að halda fleiri en þrjá hunda eldri en 3 mánaða á sama heimili.

Bæði hunda- og kattahald er bannað í sveitarfélaginu en sveitarfélagið getur veitt einstaklingum undanþágu til að vera með slík dýr en sækja þarf um slíkt og þarf þá að merkja dýrin samkvæmt ákveðnum reglum.