Endurbætur á höfninni í Þorlákshöfn

Sigurður IngiSuðurlandið er þekkt fyrir blómlegan matvælaiðnað. Ljóst er að tækifæri eru til uppbyggingar á því sviði sem og öðrum á næstu árum. Í nokkurn tíma hefur stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn verið til skoðunar með það að markmiði að hún yrði nothæf til stórflutninga. Það er mitt mat að mikilvægt er að á Suðurlandi sé höfn sem getur þjónustað þá starfsemi sem er á svæðinu.

Þorlákshöfn er ákjósanleg fyrir stórskipahöfn. Mikill áhugi er á að koma upp vörusiglingum til og frá Þorlákshöfn vegna þess að siglingatími myndi styttast um allt að sólarhring ef siglt væri til Þorlákshafnar í stað Reykjavíkur eða annarra hafna á Faxaflóasvæðinu. Einnig yrði ákjósanlegt að taka á móti ekjuskipum þar sem landrými er mikið í kringum bæinn og samgöngur góðar. Auk þess er stækkun hafnarinnar mikilvægt öryggismál þar sem hún er eina höfnin á mjög stóru hafsvæði og verður að vera áreiðanlegur hlekkur í forvarnaráætlunum og björgunaraðgerðum. Tillaga að endurbótum á höfninni í Þorlákshöfn liggur fyrir. Í skýrslu um eflingu hafnarinnar sem unnin var fyrir Sveitarfélagið Ölfus í september 2014, kemur fram að áætlaður kostnaður við heildarframkvæmdina sé um tveir milljarðar króna. Þar er þó reiknað með að um 60% þeirrar upphæðar þurfi nú þegar í aðkallandi viðhald á höfninni. Það sé kostnaður sem ekki verði komist hjá. Því má leiða sterk rök fyrir því að það þurfi ekki svo mikið viðbótarfjármagn, þó vissulega hlaupi þær upphæðir á hundruðum milljóna króna, svo hafnaraðstaðan í Þorlákshöfn myndi stórbatna og þar með opna ýmsa möguleika.

Það er mín  skoðun að þjóðhagslega hagkvæmt væri að byggja upp góða hafnaraðstöðu til framtíðar í Þorlákshöfn þar sem slík uppbygging hefði í för með sér fjölbreytni í atvinnuþróun og búsetukostum á Suðurlandi. Stækkun á núverandi höfn myndi þýða að stærri flutningaskip, gætu lagst þar að, auk þess myndi það auka möguleika á komu skemmtiferðaskipa sem því miður er ekki siglt þangað eins og sakir standa. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér hvaða áhrif slík starfsemi og aukin áhrif henni tengd, myndu hafa á sveitarfélögin á Suðurlandi.

Sigurður Ingi Jóhannsson,     
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra