Grétar Ingi stefnir á endurkomu í byrjun janúar

gretar2015Allt stefnir í að Grétar Ingi Erlendsson komi fyrr til baka úr meiðslum en áætlað var í upphafi. Körfuboltamaðurinn fór í aðgerð á dögunum þar sem brotið bein var fjarlægt úr öðrum fæti en hann stefnir á að byrja að spila með Þórs liðinu í janúarbyrjun ef allt fer að óskum.

Í samtali við Karfan.is sagði Grétar að aðgerðin hafi gengið mjög vel og vonast hann bara til þess að þetta sé að gróa almennilega.

„Nú er ég svona að gæla við að vera aðeins fyrr en áætlað var í upphafi þannig að janúarbyrjun er markmiðið eins og er.“

Þá segir hann einnig í viðtalinu að það hafi verið frábært að fylgjast með liði Þórs í síðustu leikjum og fylgjast með framförum ungu strákanna. „Það er nokkuð ljóst að þeir ætla að láta mann hafa fyrir því að vinna sig inn í hópinn.“