Troðfullt hús í útgáfuveislunni

ÚtgáfuveislaFullt var út úr dyrum á bókasafninu í dag þegar haldið var upp á útgáfu bókar um sögu Þorlákshafnar. Björn Pálsson skrifaði bókina og ber hún heitið Saga Þorlákshafnar 1930-1990.

Bókin spannar spennandi tímabil í sögu staðarins, þar sem ungt og athafnasamt fólk ákveður að koma til Þorlákshafnar, byggja hús og flytja hingað með fjölskyldur sínar. Smám saman verður til þorp sem býr að athafnagleði, virku félagslífi, framtakssemi og samtakamætti þeirra sem hingað fluttu.

Barbara Guðnadóttir flutti ávarp og þakkaði Birni fyrir alla þá vinnu og metnað sem hann hefur lagt í verkið og færði Gunnsteinn Ómarsson honum blómvönd fyrir hönd sveitarfélagsins. Björn var að vonum ánægður með útgáfu bókarinnar og flutti hann skemmtilegt ávarp og áritaði bækur á staðnum.

Það er ljóst að margir hafa beðið eftir útgáfu bókarinnar þar sem bækurnar ruku út. Bókin verður áfram til sölu á bókasafninu og mun Björn mæta aftur á bókasafnið 1. desember til að árita bækur.